Innlent

Tvær kvikmyndasýningar á viku duga ekki

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hafnfirðingar vilja meira líf í Bæjarbíó með leikhúsrekstri en Kvikmyndasafn Íslands segist þá munu hverfa á braut.
Hafnfirðingar vilja meira líf í Bæjarbíó með leikhúsrekstri en Kvikmyndasafn Íslands segist þá munu hverfa á braut. Fréttablaðið/Hörður
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segist ekki sammála því að ekki getið farið saman rekstur leikhúss og starfsemi Kvikmyndasafns Íslands í Bæjarbíó.

Kvikmyndasafnið hefur afnot af Bæjarbíói samkvæmt samningi við Hafnarfjarðarbæ. Þess utan hefur safnið geymslu í byggingu sem áður var fiskvinnsluhús og Guðrún segir ekki standa til að hrófla við því. Gaflaraleikhúsið hafi hins vegar áhuga á að taka við rekstri Bæjarbíós og hleypa lífi í húsið – sem sé einmitt ósk bæjaryfirvalda.

„Þetta er náttúrulega hús sem bærinn á og hlýtur að hafa eitthvað um að segja hvað þar á að vera inni,“ segir bæjarstjórinn sem kveðst ekki telja að Hafnfirðingar séu að fórna Kvikmyndasafninu með því að endurnýja ekki samning safnsins um Bæjarbíó.

„Auðvitað er alls ekki skemmtilegt að missa safnið úr bænum. Spurningin er hins vegar hvort við getum búið við það að Bæjarbíó sé í notkun fjóra tíma í viku með tvær kvikmyndasýningar en að öðru leyti nánast ónotað. Þetta er hús í hjarta bæjarins og við teljum að það sé hægt að njóta þess meira,“ segir bæjarstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×