Innlent

Erlendir ógæfumenn gista hjá lögreglunni

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Gistiskýlið, gististaður fyrir útigangsmenn.
Gistiskýlið, gististaður fyrir útigangsmenn.
„Þetta er síðasta sort,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sjö útigangsmenn gistu fangageymslur í fyrrinótt að eigin ósk því þeir höfðu ekki í önnur hús að venda.

Stór hluti mannanna er af erlendum uppruna. Vegna uppruna síns eiga þeir ekki kost á að nota gistiskýlin í borginni því til þess þurfa skjólstæðingar að hafa skráð lögheimili í Reykjavík.

„Þeir fá enga sérmeðferð heldur er bara skellt í lás á eftir þeim eins og öðrum föngum. Þeir þurfa því að fá sérstakt leyfi til að pissa eins og gengur um aðra svo banka þeir bara á hurðina að morgni þegar þeir vilja komast út og er þá sleppt. Þetta er mjög sorglegur veruleiki,“ segir Jóhann.

Reykjavíkurborg hyggst skoða mál erlendu mannanna sérstaklega. „Þetta er nýr vandi sem við blasir,“ segir Elfa Björk Ellertsdóttir, upplýsingafulltrúi velferðasviðs borgarinnar.

„Það er hér hópur erlendra manna á vergangi sem varð fyrst sýnilegur fyrir einhverri alvöru í fyrravor. Þetta er því miður ekki í fyrsta sinn sem þeir sækja í lögreglustöðina í ár. En þangað hafa þeir sótt nokkrum sinnum frá því í mars. Okkur þykir sannarlega kominn tími til að skoða þeirra mál sérstaklega,“ segir Elva.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru mennirnir sem um ræðir í kringum tíu. Þeir hafast við í miðbænum á daginn eða nýta sér dagsetur á Hólmaslóð. Hjálpræðisherinn er lokaður á sumrin og nýttur sem gistiheimili fyrir ferðamenn. Mennirnir eru því með öllu úrræðalausir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×