Innlent

Leggja upp úr vinalegu viðmóti

Í apríl síðastliðnum höfðu 176 bæir og sveitarfélög í 27 löndum víðs vegar um heiminn gerst aðilar að hreyfingunni.
Í apríl síðastliðnum höfðu 176 bæir og sveitarfélög í 27 löndum víðs vegar um heiminn gerst aðilar að hreyfingunni.
Djúpavogshreppur, tæplega 500 manna sveitarfélag á sunnanverðum Austfjörðum, hefur hlotið inngöngu í Cittaslow-hreyfinguna, fyrstur byggða á Íslandi. Markmið Cittaslow-sveitarfélaga er að auka lífsgæði íbúa og leggja áherslu á sérstöðu þeirra. Verndun náttúrunnar og fegrun umhverfisins er þar í forgrunni; notkun nýjustu tækni í þágu samfélagsins, staðbundin matarmenning og framleiðsla.

„Eins munum við leggja mikið upp úr gestrisni, kurteisi og vinalegu viðmóti,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, um verkefnið, sem var styrkt af Nýsköpunarsjóði og hefur verið í undirbúningi um skeið.

Á hausti komanda verður blásið í herlúðra og svokallaðir Íslenskir dagar – Cittaslow haldnir í sveitarfélaginu. „Þá tökum við eina langa helgi í að ganga í smiðju og læra eitt og annað nytsamlegt. Það er þetta gamla íslenska; taka slátur, laga saft, úrbeina kjöt, tína og nýta sveppi og herða fisk. Allt kemur til greina og við erum á fullu í hugmyndavinnu þessa dagana.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×