Lífið

Deila hart um dauða Michaels Jackson

Móðir Michaels Jackson vill að AEG Live verði dæmt fyrir aðild að dauða sonar síns. nordicphotos/getty
Móðir Michaels Jackson vill að AEG Live verði dæmt fyrir aðild að dauða sonar síns. nordicphotos/getty
Lögfræðingur fjölskyldu Michaels Jackson heldur því fram að tónleikahaldarinn AEG Live hafi ekki staðið sig í stykkinu þegar læknirinn Conrad Murray var ráðinn til að annast popparann sáluga.

Réttarhöld eru hafin í Los Angeles í málinu, sem fjölskylda Jacksons, þar á meðal móðir hans Katherine, höfðaði gegn AEG Live. Lögfræðingurinn Brian Panish sagði fyrir rétti að AEG Live væri eini aðilinn sem segðist ekki hafa vitað af fíkn popparans í lyfseðilsskyld lyf. „Í gegnum árin taldi fjölskylda Jacksons og fólk sem þekkti hann að hann glímdi við vandamál vegna lyfjafíknar,“ sagði hann og hélt áfram: „Slökkt var að eilífu á hrífandi rödd hans, tónlistarsnilld, sköpunargáfu og hans stóra hjarta.“

Lögfræðingur AEG Live, Marvin Putnam, sagði að Jackson hefði gætt einkalífs síns vel og vandlega og tónleikahaldarinn hefði ekkert vitað um fíkn hans. „Sannleikurinn er sá að Michael Jackson gabbaði alla. Hann sá til þess að enginn vissi um hans myrkustu leyndarmál.“

Talið er að dómsmálið fjalli að mestu um síðustu mánuðina í lífi Jacksons, sögu hans í fjármálum og heilsufar hans. Búist er við því að börnin hans muni bera vitni og hugsanlega söngkonan Diana Ross, leikstjórinn Spike Lee og upptökustjórinn Quincy Jones.

Conrad Murray verður að vonum áberandi í málinu. Læknirinn var dæmdur sekur fyrir manndráp af gáleysi árið 2011 fyrir að láta Jackson fá banvænan skammt af róandi lyfjum og deyfilyfinu Propofol sem drógu popparann til dauða.

Í málshöfðun sinni frá árinu 2010 heldur fjölskylda Jacksons því fram að AEG hafi ekki rannsakað bakgrunn Murrays almennilega áður en hann var ráðinn sem einkalæknir Jacksons. Murray átti að fá 150 þúsund dali á mánuði á meðan á tónleikaferðinni This Is It átti að standa en Jackson lést áður en hún hófst. Fjölskyldan telur að fyrirtækið hafi sett of mikinn þrýsting á Murray um að gera Jackson kláran fyrir tónleikaferðina.

AEG Live mun halda því fram að Jackson hafi valið Murray sem lækninn sinn og að hann hafi ekki verið starfsmaður fyrirtækisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.