Innlent

Enginn lést vegna ölvunaraksturs í fyrra

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Banaslysum í umferðinni hefur fækkað mikið á síðustu árum.
Banaslysum í umferðinni hefur fækkað mikið á síðustu árum.
Banaslysum í umferðinni hefur fækkað mikið á síðustu árum. Samkvæmt slysaskýrslu Umferðarstofu 2012 létust níu manns í umferðinni árið 2012, sem er um 28 á hverja milljón íbúa en það er með því allra lægsta í heiminum.

Síðastliðin fimm ár, eða á árunum 2008 til 2012, hafa 58 látist í umferðarslysum á Íslandi en næstu fimm ár þar á undan, 2003 til 2007, létust 111 með sama hætti. Það er um 48 prósenta fækkun.

Enginn lést vegna ölvunar við akstur á síðasta ári og er það einsdæmi síðan skráningar hófust árið 1986. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að einn hafi látist af völdum fíkniefnanotkunar og einn vegna löglegra lyfja.

Alvarlega slösuðum fækkar einnig á milli ára úr 154 í 136, eða um tólf prósent. Lítið slösuðum fækkar einnig talsvert, eða úr 1.063 í 899, sem er 15 prósenta lækkun. Í heildina fækkar látnum og slösuðum úr 1.229 í 1.044.

Slysum meðal ungra ökumanna á aldrinum 17-20 ára hefur einnig fækkað mjög og þá sérstaklega frá árinu 2007 þegar svokallað akstursbann var sett í lög. Samkvæmt því er handhafi bráðabirgðaskírteinis settur í ótímabundið akstursbann ef hann fær fjóra punkta í ökuferilsskrá eða er sviptur ökuréttindum vegna alvarlegra umferðarlagabrota. Akstursbanninu er ekki aflétt fyrr en að loknu sérstöku námskeiði og endurtöku ökuprófs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×