Innlent

Lánsveðshópur fær loks eigin 110% leið

Fasteignir Í lok árs 2011 var alls 1.951 lántakandi sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveði á árunum 2004 til 2008 með húsnæðisskuld umfram 110% af fasteignamati.
Fréttablaðið/Vilhelm
Fasteignir Í lok árs 2011 var alls 1.951 lántakandi sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveði á árunum 2004 til 2008 með húsnæðisskuld umfram 110% af fasteignamati. Fréttablaðið/Vilhelm
Ríkisstjórnin og Landssamtök lífeyrissjóða gerðu í gær með sér samkomulag um aðgerðir í þágu yfirveðsettra heimila sem eru með lán með veð í eignum annarra. Er stefnt að því að þessi heimili fái nú svipaða lausn sinna mála og öðrum yfirveðsettum heimilum stóð til boða í gegnum 110% leiðina.

„Þessi lausn er mikið réttlætismál þar sem lánsveðshópnum býðst sama úrlausn mála og þeim sem fóru 110% leiðina. Við höfum barist fyrir þessu lengi og þetta er mjög ánægjuleg niðurstaða,“ segir Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu um samkomulagið í gær. Samkvæmt því skal stefnt að því að eftirstöðvar húsnæðislána með lánsveð verði færðar niður að 110% af verðmæti fasteignar lántaka.

Kostnaðurinn við þessar aðgerðir mun dreifast þannig að lífeyrissjóðirnir greiða fyrir 12% en ríkissjóður fyrir 88%. Áður en hægt er að framkvæma þær þarf ríkisstjórnin þó að afla lagaheimilda til þess að skuldbinda ríkissjóð til þessa kostnaðar. Auk þess þarf að afla staðfestingar frá stjórnum hlutaðeigandi lífeyrissjóða.

Samkvæmt niðurstöðum sérfræðingahóps sem efnahags- og viðskiptaráðuneytið skipaði í fyrra var í lok árs 2011 1.951 lántakandi, sem fjármagnaði húsnæðiskaup með lánsveði á árunum 2004 til 2008, með húsnæðisskuld umfram 110% af fasteignamati. Þessi hópur gat ekki tekið þátt í 110% leiðinni þar sem lífeyrissjóðirnir, sem eru eigendur langflestra lánanna, töldu það ekki heimilt samkvæmt lögum.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×