Innlent

Óíbúðarhæft vegna skolplyktar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Á Siglufirði Eyrarflöt er syðst í bænum á Siglufirði. Skolplagnir liggja þar út í krók við landfyllingu neðan við hverfið. 
Fréttablaðið/Stefán
Á Siglufirði Eyrarflöt er syðst í bænum á Siglufirði. Skolplagnir liggja þar út í krók við landfyllingu neðan við hverfið. Fréttablaðið/Stefán
„Þetta er misjafnt en hefur verið að versna,“ segir Elías Þorvaldsson, einn íbúa við Eyrarflöt á Siglufirði sem sendu bæjaryfirvöldum undirskriftalista með ósk um úrbætur vegna ólyktar af skolplögnum í fjörunni neðan við hverfið.

Bærinn er beðinn að stemma stigu við „óþolandi lyktarmengun“ sem stafi frá skolpi sem safnist saman vegna ófullnægjandi frágangs á frárennslislögnum. „Straumarnir ná einfaldlega ekki að koma þessu frá okkur,“ útskýrir Elías.

Íbúarnir segja að áður hafi verið fundað með bæjarstjóranum og tveir fundir haldnir í tækninefnd bæjarins síðan án þess að málið hafi verið rætt í nefndinni. Samdóma álit sé að ástandið hafi aldrei verið verra miðað við árstíma.

„Þar sem stutt er í sól og sumar með hækkandi lofthita er hætt við að ástandið versni enn frekar og verði þannig að ekki verði búandi á svæðinu,“ segir í bréfi íbúanna sem Elías kveður hafa fengið mjög jákvæðar undirtektir. „Við erum búin að fá svör um að þetta verði vonandi lagfært og erum ánægð með það,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×