Innlent

Metið hvort fársjúkur svikari þoli framsal til Ungverjalands

Stígur Helgason skrifar
Kimberger líður betur í Ólafsvík en í Suður-Evrópu. Skólpmógúllinn fyrrverandi hefur þess vegna engan áhuga á að láta á það reyna hvort hann ræður við flugferðir um heiminn.Fréttablaðið/pjetur
Kimberger líður betur í Ólafsvík en í Suður-Evrópu. Skólpmógúllinn fyrrverandi hefur þess vegna engan áhuga á að láta á það reyna hvort hann ræður við flugferðir um heiminn.Fréttablaðið/pjetur
Fársjúkur Ungverji á sjötugsaldri bíður þess nú á heimili sínu í Ólafsvík að íslensk stjórnvöld ákveði hvort hann verði framseldur til föðurlands síns. Þar á hann óafplánaðan dóm fyrir að svíkja ungverska ríkið, sem hafði borgað honum fyrir skólphreinsistörf.

Ferenc Kimberger er 66 ára og hlaut árið 2010 fangelsisdóm fyrir fjársvik í viðskiptum sínum við ungverska ríkið nokkrum árum fyrr.

Kimberger rak skólphreinsifyrirtæki, Mélyépszolg Kft., og fékk afnotarétt af ríkisjörðum í skiptum fyrir störf í þágu hins opinbera sem síðan voru aldrei innt af hendi. Auk þess seldi hann hluta af þessu landi, sem hann átti ekki.

Refsingin sem Kimberger fékk er allt að fimm ára fangelsi, en þegar dómurinn gekk var hann hins vegar fjarstaddur. Hann var nefnilega fluttur til Íslands og sestur að í Ólafsvík á Snæfellsnesi, þar sem hann keypti sér hús fyrir nokkrum árum. Hann hefur síðan lifað á greiðslum úr ungverska velferðarkerfinu og reglulega fengið ættingja sína hingað í heimsókn.

Þegar ungversk yfirvöld áttuðu sig á því að þau væru að senda dæmdum manni peninga til Íslands fóru þau að grennslast fyrir um hann og í kjölfarið handtók lögreglan á Snæfellsnesi Kimberger, yfirheyrði og fékk hann í kjölfarið úrskurðaðan í farbann.

Þetta var í október í fyrra. Síðan hefur farbannið margsinnis verið framlengt, síðast ótímabundið, en Kimberger hefur aldrei mótmælt því, enda mun hann engan áhuga hafa á að fara eitt eða neitt.

Fyrirtækið utan um skólphreinsunina varð gjaldþrota árið 2007. Nú er ekki nóg með að ungversk yfirvöld hafi fengið veður af því að Kimberger sé búsettur á Íslandi og vilji fá hann framseldan, heldur vill skiptastjóri þrotabúsins sömuleiðis fá hann í skýrslutöku um hina og þessa gjörninga í rekstri fyrirtækisins fyrir gjaldþrotið.

Framsalsbeiðni ungversku lögreglunnar barst hingað nýlega og er nú til meðferðar í innanríkisráðuneytinu. Lögmaður Kimbergers hefur mótmælt henni og borið við mannúðarsjónarmiðum.

Ástæða búferlaflutninganna, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, var nefnilega heilsufarsleg. að minnsta kosti að sögn Kimbergers sjálfs.

Hann er mjög sykursjúkur og hjartveikur og flutti hingað til að komast í loftslag sem hentaði honum betur en hitinn og rakinn sunnar í Evrópu. Núorðið fer hann varla út úr húsi og greinargerð lögmanns hans til ráðuneytisins mun fylgja læknisvottorð þar sem segir afdráttarlaust að ferðalag til Ungverjalands mundi líkast til ríða fjársvikaranum að fullu.

Ekki er vitað til þess að íslensk yfirvöld hafi nokkru sinni hafnað framsalsbeiðni af þessari ástæðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×