Innlent

Vilja kenna börnum skák frá fyrsta degi

Svavar Hávarðsson skrifar
Sannað þykir að bæta megi skólastarf með markvissri skákiðkun í skólum. Mynd/hrafn jökulsson
Sannað þykir að bæta megi skólastarf með markvissri skákiðkun í skólum. Mynd/hrafn jökulsson
Sterk rök hníga að því að taka upp skákkennslu í grunnskólum landsins sem hluta af fastri stundaskrá. Könnun meðal skólastjórnenda sýnir að 97% þeirra vilja taka þátt í tilraunaverkefni sem myndi innleiða kerfisbundna skákkennslu fyrir yngstu börnin inn í skólastarfið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu nefndar sem Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði í byrjun árs.

Helstu rökin sem nefnd eru í skýrslunni fyrir því að taka upp skipulega skákkennslu í skólum eru uppeldisleg. Rannsóknir sýni að nemendur sem fá reglubundna skákkennslu verði námfúsari, hegði sér betur og öðlist meira sjálfstraust. Könnun nefndarinnar sýndi að skák er hluti af skólastarfinu í 73% grunnskóla. Sú iðkun er með ýmsu móti. Það sem stendur frekari skákiðkun fyrir þrifum er helst skortur á þjálfuðum kennurum og ekki síður að námsefni vantar, er mat skólastjórnenda.

Stefán Baldursson, skrifstofustjóri menntamálaráðuneytisins, starfaði með nefndinni. Hann segir að stefnt sé að fundi með ráðherra um niðurstöður nefndarinnar og framhald málsins innan ráðuneytisins, þar á meðal verður kostnaður greindur.

Nefndina skipuðu þekktir skákmeistarar og aðrir velunnarar skáklistarinnar. Við spurningunni hvort niðurstaða nefndarinnar, jákvæðni hennar gagnvart skákkennslu í skólum, mótist ekki af skákáhuga nefndarmanna segir Stefán að vissulega sé ýmislegt annað í gangi í skólakerfinu sem sé jákvætt og verðskuldi athygli. „En þetta skýrist af reynslu víða um heim þar sem skólayfirvöld eru að taka skákina upp í skólunum af ýmsum uppeldislegum ástæðum.“

Hér vísar Stefán til þess að til umræðu er innan Evrópusambandsins og hjá Evrópuþinginu að taka skák kerfisbundið upp sem fag í skólum vegna árangurs sem skipuleg skákkennsla og skákiðkun er talin gefa í skólastarfi. Víða utan Evrópusambandsins, í ríkjum þar sem er mikil skákhefð, hefur skipuleg skákkennsla þegar verið tekin upp á undanförnum árum. Efnislega eru niðurstöður nefndarinnar þær sömu og annarrar nefndar með sama hlutverk, sem skipuð var af þáverandi menntamálaráðherra árið 2007. Stefán játar því að hrunið haustið 2008 hafi haft mikið með það að gera að lítið varð úr verki, en nefndarstarfið núna sé einnig svar við því hversu verkefnið stóð stutt í fyrra skiptið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×