Skoðun

Frá sjónarhóli læknanema

Elías Sæbjörn Eyþórsson skrifar
Undanfarna mánuði hefur átt sér stað umræða um óánægju unglækna og læknakandidata á Landspítalanum með álag og launamál. Sú óánægja hefur meðal annars komið fram í uppsögnum tuttugu unglækna sem hafa sagt starfi sínu lausu í stað þess að vinna við þær aðstæður sem þeim eru boðnar.

Ég vil gera grein fyrir aðstæðum frá mínum sjónarhóli. Ég er læknanemi og mun ljúka mínu fjórða námsári nú í vor. Skiptingin á náminu er þannig að fyrstu þrjú námsárin eru bókleg og aðallega er kennt í kennslustofum en síðari þrjú árin eru verkleg og er kennt á Landspítalanum og heilsugæslustöðvum. Mín fyrstu kynni af spítalanum voru því í haust þegar ég mætti í mína fyrstu viku af verklegu námi.

Ég byrjaði strax að fylgjast náið með unglæknunum og læknakandidötunum. Það var eins og að fá að gægjast þrjú ár inn í framtíðina. Ég var gífurlega forvitinn um hvernig líf mitt myndi verða fyrstu árin eftir að námi mínu lyki. Það sem sló mig fyrst var hvað þau voru með allt á hreinu. Það skipti ekki máli hvað ég spurði mikið og ýtarlega, ég fékk alltaf greinargott svar og góða kennslu. Sérfræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, aðstandendur og sjúklingar komu í röðum og fengu svör við sínum spurningum eins og ekkert væri auðveldara. Þau vissu hvar allt var og hvernig allt virkaði. Þau voru ofurmenni. Ég var stoltur af því að ég myndi einn daginn gegna svo ábyrgðarmiklu hlutverki og vonaðist til að geta staðið mig eins vel.

Aldrei í matsalnum

En svo liðu vikurnar og mánuðirnir og ég fór að taka eftir fleiri hlutum. Ég tók eftir því að unglæknar voru aldrei í matsalnum heldur borðuðu matinn sinn við tölvurnar. Ég tók eftir því að þegar vaktinni lauk og ég fór heim, þá sátu unglæknarnir eftir og héldu áfram vinnu. Ég tók eftir baugunum og svefnleysinu. Ég tók eftir því að unglæknar áttu oft að vera á þremur stöðum í einu til að sinna þeim skyldum sem þeir áttu að gegna. Fólk sem ég hafði gert ráð fyrir að væru vinnualkar og sátt við sitt hlutskipti reyndist vera foreldrar sem þráðu ekkert meira en að vera heima með börnunum sínum. Þau voru ekki ofurmenni. Þau voru venjulegt, duglegt fólk undir gífurlegu álagi. Við stoltið blandaðist kvíði. Hvernig getur venjulegt fólk unnið undir svona miklu álagi?

Ég er ekki læknir. Ég hef ekki kynnt mér kjarasamninga lækna og veit ekki hvað þeir eru með í laun. Ég get engu svarað um það hvort laun unglækna séu sanngjörn eða ekki. Ég get hins vegar fullyrt að unglæknar eru undir ótrúlegu álagi. Það er óhrekjanleg staðreynd.




Skoðun

Sjá meira


×