Skoðun

Fátækt kallar á aðgerðir

Bjarni Gíslason skrifar
Hjálparstarf kirkjunnar vill vissulega draga fram erfiða stöðu fátækra á Íslandi og hvetja fólk til að bregðast við og taka þátt í páskasöfnun til eflingar innanlandsstarfi sem nær til alls landsins. Valgreiðsla bíður þín í heimabankanum og þú getur gefið á framlag.is. En við viljum ekki síður benda á hæfileika og getu þeirra sem hafa vegna fátæktar ýst út á jaðar samfélagsins, hafa einangrast og fá ekki að taka þátt og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Framlag sem við höfum alls ekki efni á að vera án. Ónýtt geta, ónýttir hæfileikar, ónýtt framleiðni sem við þurfum á að halda.

Hjálparstarfið þrýstir á hið opinbera að beita í frekari mæli einstaklingsmiðuðum lausnum og hlúa betur að þeim sem hafa lent milli skips og bryggju í kerfinu. Með stofnun Íslandsdeildar EAPN (European Anti Poverty Network), ásamt öðrum samtökum, vill Hjálparstarfið vinna gegn fátækt, stuðla að opinni umræðu og þrýsta á yfirvöld um lausnir.

Það borgar sig nefnilega, mannlega og efnahagslega, að ná öllum inn í hlýjuna, að virkja alla til þátttöku. Um það snýst starf Hjálparstarfsins á Íslandi í samstarfi við fjölda aðila. Markmiðið er að rjúfa vítahring fátæktar, horfa á getu og hæfni hvers og eins og opna möguleika til virkrar þátttöku í samfélaginu. Það gerist með efnislegri aðstoð, til dæmis inneignarkortum í matvöruverslunum, lyfjastuðningi og stuðningi vegna kostnaðar við framhaldsskólanám, en um leið með almennri ráðgjöf, fjármálaráðgjöf, sjálfstyrkingarnámskeiðum og lífsleikni-, matreiðslu- og saumanámskeiðum.

Markmiðið er sjálfstæði og betri lífsafkoma. Með þeim sem eru í erfiðri stöðu er mikill kraftur og geta sem þarf að virkja og finna farveg fyrir. Þegar því er náð er gangan hafin, í eigin krafti sem fullgildur þjóðfélagsþegn sem fær að láta ljós sitt skína. Ljós sem hafði af ýmsum ástæðum dofnað og jafnvel slokknað. En þannig á það ekki að vera. Fátækt kallar á aðgerðir. Hvað ætlar þú að gera?




Skoðun

Sjá meira


×