Innlent

Á eftir að ræða við ráðherra um leyfið

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Gísli Tryggvason
Gísli Tryggvason
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, kveðst ekki hafa verið í fríi frá störfum vegna framboðs síns fyrir Dögun þótt ekki hafi birst frétt á vef embættis hans síðan 21. desember. „Það hefur bara verið lítið að frétta," segir Gísli, sem gerir ráð fyrir að taka sér frí frá störfum í apríl vegna framboðsins. Alþingiskosningarnar verða haldnar 27. apríl. „Ég á eftir að ræða það við ráðherra," greinir Gísli frá.

Talsmaður neytenda kveðst ekkert hafa frétt nánar um tillöguna um að embætti hans verði lagt niður. Greint var frá því í lok síðastliðins árs að starfshópur um skipulag neytendamála, sem innanríkisráðherra skipaði, hefði lagt til að embættið yrði lagt niður og málaflokkurinn styrktur með öðrum hætti.

Embætti talsmanns neytenda var stofnað í júlí 2005. Samkvæmt lögum ber talsmanninum að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að neytendavernd, að því er segir á vef embættisins.

Í lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda segir að talsmaður neytenda skuli gefa árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Skýrsluna skuli prenta og birta opinberlega. Það hefur Gísli aldrei gert.

„Ég hef ekki gert ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun og ekki lagt í þann kostnað. Ég geri ekki ráð fyrir að mikil eftirspurn sé eftir prentaðri skýrslu. Allar upplýsingar birtast á vefnum nema ársreikningur. Það mætti hins vegar íhuga að birta auglýsingu í fjölmiðlum með helstu upplýsingum. Þannig kæmist embættið ódýrt frá þessu."

Gísli kannast ekki við að hafa fengið athugasemdir frá ráðuneytinu vegna vanskilanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×