Skoðun

Víti til varnaðar fyrir kennara – veikindaréttur

Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir skrifar
Eftir kreppu hefur það tíðkast hjá skólastjórnendum að ráða kennara til starfa í eitt ár í senn, sem sagt kennarar fá tímabundna ráðningu til eins árs í stað fastráðningar sem tíðkaðist fyrir kreppu.

Veikindaréttur kennara hefur hingað til talist nokkuð góður, það er að segja að kennari með fastráðningu á rétt á launagreiðslum í veikindum í eitt ár og komist hann ekki aftur til starfa á hann rétt á dagpeningum úr sjúkrasjóði Kennarasambandsins í allt að eitt ár til viðbótar.

Nú getur viljað svo óheppilega til að kennari veikist á tímabili lausráðningar. Þá gildir engu um þann árafjölda sem hann hefur greitt félagsgjöld og fleira, hann er næstum réttlaus. Réttur hans til launa í veikindum gildir út ráðningartímabilið. Að því loknu er jú hægt að fá greiðslur úr sjúkrasjóði en aðeins til þess að bæta upp tekjumissi það sem eftir liggur upp í þetta eina ár sem ráðningarsamningur gildir.

Segjum svo að kennari veikist í janúar. Hann er með ráðningarsamning sem gildir til 1. ágúst, hann er í veikindaleyfi í þá 8 mánuði sem eftir eru af ráðningarsamningnum og fær þá greidda frá vinnuveitanda. Nú dettur umræddur kennari út af launaskrá hjá viðkomandi vinnuveitanda og getur þá sótt um greiðslur úr sjúkrasjóði en vegna þess að hann var lausráðinn greiðir sjúkrasjóður KÍ einungis þá 4 mánuði sem upp á vantaði og ekki krónu meir, réttur kennarans til greiðslna í eitt ár er dottinn út við það að vera lausráðinn. Niðurstaðan er sú að kennari sem veikist í tímabundinni ráðningu fyrirgerir veikindarétti sínum.

Kennarastéttin er að eldast og ekki ólíklegt að þeir sem kennt hafa í mörg ár þurfi að leita til síns stéttarfélags með fjárhagsleg úrræði þegar heilsunni fer að hraka. Hafi þeir asnast til að taka að sér sértæk verkefni sem veita aðeins lausráðningu þá eru þeir settir út á guð og gaddinn. Satt að segja er það virkilega sár upplifun fyrir fólk sem hefur skilað sínu til kennarastéttarinnar en horfir nú fram á heilsubrest að standa frammi fyrir þeim fjárhagsáhyggjum sem slík brotalöm í kjarasamningum veldur.




Skoðun

Sjá meira


×