Skoðun

Konur væla – karlar deyja

O. Lilja Birgisdóttir iðjuþjálfi skrifar
Þessu kastaði Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlits ríkisins, fram á forvarnarráðstefnu VÍS og VER og vekur vissulega til umhugsunar. Hér var verið að ræða um jafnrétti í vinnunni út frá vinnuslysaskráningu. Búum við við jafnrétti í vinnunni? Launatölur sýna vissulega annað en hvað um aðbúnað?

Vinnuumhverfið, eins og það er hannað í dag, er að mörgu leyti hannað út frá karlmönnum og svokölluðum mannmælingum karla (anthropometry). Persónuhlífar eru oftar en ekki hannaðar út frá þörfum karla. Mögulega er þetta afleiðing þess að konur voru heimavinnandi og karlarnir fyrirvinnur.

Ein leiðin til að skoða vinnuumhverfið og áhrif þess er að nota vinnuslysatölur eins og Kristinn Tómasson vísaði í á ráðstefnunni. Samkvæmt lögum nr. 46/1980 og grein 34. gr. reglugerðar nr. 920/2006 um tilkynningar vinnuslysa „skal atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna Vinnueftirlitinu um öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í a.m.k. einn dag auk slysdagsins...“ Skráð orsök slysa er oftast högg, fall, skurðir og stungur.

Raunhæf mynd?

Slysatölurnar sýna okkur að ungir, ófaglærðir karlmenn eru þeir sem oftast slasa sig. Engu að síður er stoðkerfisvandi einn af stærstu áhrifaþáttunum þegar skoðaðar eru fjarvistir frá vinnu. Þetta speglast ekki í skráningu vinnuslysa hjá Vinnueftirlitinu. Þá má velta því upp hvort slysaskráning gefi raunhæfa mynd af aðbúnaði til vinnu ef við erum ekki að skrá stoðkerfisvanda sem vinnuslys. Vinnuslysatölur frá Norðurlöndunum, og þá sérstaklega Danmörku, sýna að konur eru í meirihluta hvað varðar stoðkerfisvandamál. Til þess að fá raunverulega mynd af vinnuumhverfinu og áhrifum þess á heilsu og öryggi þarf að skrá öll slys og atvik sem leiða til óvinnufærni. Á þann hátt er hægt að rannsaka og bæta vinnuumhverfið þannig að rétt mynd fáist og jafnrétti skapist hvað varðar vinnuaðbúnað.

Erfitt er að meta áhrifavalda stoðkerfisvandamála en þó eru ýmsar rannsóknir sem sýna fram á þætti sem hafa bein áhrif. Má þar nefna einhæf vinnubrögð, afkáralegar vinnustellingar, lyftur og burð. Þessa þætti er hægt að greina strax við áhættumat starfa og gera úrbætur til að koma í veg fyrir óþarfa álag við vinnu.

Við sjáum enn kynjaskiptingu í störfum, karlastörf og konustörf. Karlar í bygginga- og vélavinnu, konur í umönnunar- og færibandavinnu. Við getum velt því fyrir okkur hvort þetta sé rétt. Mikilvægast er þó að jafnréttis sé gætt bæði hvað varðar laun, öryggi og heilbrigði. Það er óásættanlegt að ungir, ófaglærðir karlmenn séu að slasa sig við vinnu og jafnvel deyi. Það er líka óásættanlegt að konur slíti sér út við vinnu en enginn taki eftir því og kalli það jafnvel væl. Verum vakandi og skráum öll atvik og slys þannig að hægt sé að berjast fyrir bættum aðbúnaði til vinnu fyrir alla.

Hönnum vinnuumhverfið út frá mismunandi þörfum og hugum vel að þörfum beggja kynja þannig að allir komist heilir heim, bæði líkamlega og andlega. Vel hannað vinnuumhverfi tekur tillit til aldurs, kyns og uppruna. Benda má á ráðstefnu tengda efninu sem haldin verður í sumar á vegum Vinnuvistfræðifélags Íslands (Vinnís): Ergonomics for Equality, en hægt er að nálgast nánari upplýsingar á www.nes2013.is.




Skoðun

Sjá meira


×