Skoðun

Það þarf þjóð til að vernda barn

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Vanræksla er ein birtingarmynda ofbeldis gegn barni. Þegar þörfum barns er ekki sinnt nægjanlega þannig að barninu er búin hætta af, eða það getur leitt til skaða á þroska þess, er um vanrækslu að ræða. Vanræksla getur verið líkamleg, tilfinningaleg eða sálræn og vanræksla getur einnig snúið að umsjón og eftirliti varðandi nám. Þegar rætt er um vanrækslu er ekki átt við eitt og eitt skipti heldur síendurtekin atvik. Til dæmis telst til vanrækslu ef sex ára gamalt barn kemur ítrekað of seint í skóla, kemur þangað óhreint eða í skítugum fötum dag eftir dag eða fær ekki næga hvíld að staðaldri. Foreldrar bera einfaldlega ábyrgð á að þessir þættir séu í lagi. Vanræksla getur orðið til þess að barn getur dregist aftur úr jafnöldrum sínum á mismunandi hátt, átt erfiðara með að leysa úr vandamálum og árangur þess í skóla orðið slakari. Einnig getur vanræksla orðið til þess að barn verði berskjaldaðra fyrir öðru ofbeldi, s.s. kynferðisofbeldi. Vanræksla getur því valdið varanlegum skaða bæði andlega og líkamlega.

Samkvæmt íslenskum lögum ber öllum skylda að tilkynna til viðkomandi barnaverndarnefndar, neyðarlínu 112 eða lögreglu, grun um að barn sé beitt ofbeldi eða það búi við óviðunandi aðstæður. Því miður er raunin oft sú að þessari skyldu er ekki framfylgt. Hafa má í huga að sá sem tilkynnir getur óskað eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarstarfsmanni. Barnið á ávallt að njóta vafans og það er hlutverk fagfólksins að meta hvort aðbúnaði barnsins er ábótavant.

Á vef samtakanna, www.barnaheill.is/verndumborn má finna nánari upplýsingar um vernd barna gegn ofbeldi, hvernig þekkja má einkennin og hvernig bregðast skuli við. Það er bæði siðferðisleg og lagaleg skylda okkar að tilkynna um grun á ofbeldi eða vanrækslu gegn barni. Það þarf þjóð til að vernda barn.

Nú stendur yfir átakið Út að borða fyrir börnin þar sem sextán veitingastaðir og viðskiptavinir þeirra styðja vernd barna gegn ofbeldi með því að gefa hluta af verði valinna rétta til verkefna Barnaheilla.




Skoðun

Sjá meira


×