Skoðun

Stúdentar auglýsa eftir norrænu velferðinni

Davíð Ingi Magnússon skrifar
Þegar þetta er skrifað eru þúsund stúdentar á biðlista eftir íbúð á Stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta. Það er mikið í fámennu samfélagi og fleiri en íbúar Stykkishólms, Grundarfjarðar og Bolungarvíkur svo örfá dæmi séu tekin.

Því miður sér ekki fyrir endann á biðlistunum og stúdentar þurfa því að leigja sér húsnæði á dýrasta stað landsins þar sem meðaltal fermetraverðs á leiguíbúð eru 2.500 kr. Ef útreikningar mínir standast kostar því 125.000 kr. að leigja 50 fermetra kjallarakytru. Það er nægilega stór biti til að kafna á þegar námslánin eru einungis 140.600 kr. á mánuði. Ef við opnum augun, þó það sé ekki nema örlítið, þá liggur það í augum uppi að dæmið gengur ekki upp.

Fyrst að námslánin eru ekki hækkuð hvað er þá til ráða?

Markmið laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Þar sem námsmenn eru tekjulægsti hópur samfélagsins með 32.009 kr. minna til ráðstöfunar en atvinnulausir teljum við að breytinga sé þörf.

Snemma á árinu 2012 var send breytingartillaga frá Stúdentaráði Háskóla Íslands á lögum um húsaleigubætur. Í stuttu máli sagt var breytingunni ætlað að koma til móts við húsnæðisvanda námsmanna með því að skilyrði til greiðslu húsaleigubóta til námsmanna væru rýmkuð. Rýmkunin fólst í því hagræði að ef tveir stúdentar eða fleiri leigja saman á almennum markaði þá hlýtur hver og einn húsaleigubætur í stað einungis einfaldra húsaleigubóta á hverja íbúð líkt og kerfið segir til um í dag.

Sveitarfélögin, þá sérstaklega Reykjavíkurborg, þurfa ekki að óttast að verða fyrir miklum útgjöldum þó að svigrúmið til húsaleigubóta verði aukið.

Augljóst ósamræmi

Í fyrsta lagi eiga ekki allir stúdentar lögheimili í Reykjavík þrátt fyrir að þeir búi og stundi sitt nám þar en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur hljóta námsmenn húsaleigubætur í því sveitarfélagi sem þeir eiga lögheimili, ekki búsetu. Því munu þeir stúdentar sem búa í Reykjavík en eiga lögheimili í öðru sveitarfélagi hljóta húsaleigubætur úr sínu „heima“ sveitarfélagi.

Í öðru lagi ef stúdentinn ákveður að búa í Reykjavík þá greiðir hann sitt útsvar til Reykjavíkur.

Í þriðja lagi verslar stúdentinn í því sveitarfélagi þar sem hann stundar nám og styrkir því sveitarfélagið til muna.

Sveitarfélög, ríkisstjórnin og stúdentar eru sammála um að í hinum fullkomna heimi myndu allir stúdentar sem það vilja búa á stúdentagörðum. Stúdentar sem þar búa fá samkvæmt núverandi lögum fullar húsaleigubætur en framboðið á íbúðunum er einfaldlega ekki nægilegt. Því neyðast stúdentar til þess að leigja saman dýrar íbúðir á almennum markaði og fá þá ekki fullar húsaleigubætur heldur þurfa að deila þeim með meðleigjanda sínum. Þarna er augljóst ósamræmi.

Allir eru sammála um að stúdentar eigi rétt á því að búa á stúdentagörðum. Er þá ekki sanngjarnt að koma til móts við þá eitt þúsund stúdenta sem eru á biðlista í dag og eru að leigja á rándýrum almennum markaði í Reykjavík og veita þeim fullar húsaleigubætur?

Við auglýsum eftir norrænu velferðinni sem okkur var lofað fyrir fjórum árum.




Skoðun

Sjá meira


×