Skoðun

Norðurslóðir eru framtíð Íslands

Össur Skarphéðinsson skrifar
Mín spá er að á þessari öld muni Íslendingar sækja mestan auð sinn til norðurslóða. Uppsprettur nýrra verðmæta verða ferns konar. Olíu- og gasvinnsla mun hefjast á Drekasvæðinu fyrr en seinna. Sömu lindir liggja yfir í lögsögu Norðmanna vegna Jan Mayen. Má þá ekki gleyma að þar á Ísland fjórðungs hlut í öllum olíulindum samkvæmt einum besta milliríkjasamningi sem utanríkisþjónustan hefur gert.

Hlýnun sjávar mun leiða til þess að lengra fram á öldinni kunna ný, víðfeðm búsvæði nytjategunda að skapast langt norður í höfum þegar ísþekjan bráðnar. Þar verða Íslendingar að standa fast á sínum hlut. Ekki er ólíklegt að stofnarnir sem breiðast norður um séu íslenskrar ættar, eða afleggjarar úr flökkustofnum sem við eigum þegar umsaminn hlut í.

Siglingar um Norður-Íshafið aukast ár frá ári vegna minnkandi hafíss og aukins áhuga Asíuríkja og norðurskautsríkja á að nýta siglingaleiðina til að stytta flutningaleiðir milli hafna við Norður-Atlantshaf og Kyrrahaf. Þar er til lengri tíma horft til miðleiðarinnar, þvert yfir pólinn, sem er stysta leiðin milli Asíu og Evrópu. Vegna legu landsins mun miðleiðin auka gríðarlega pólitískt vægi Íslands gagnvart Asíu, Ameríku og Evrópu. Hún mun líka krefjast þess að Ísland verður ein af mikilvægum umskipunarhöfnum fyrir flutningana yfir pólinn. Það leiddi til efnahagslegra stakkaskipta á Íslandi, og Norðurlandi sérstaklega.

Fyrst í tíma er þó uppbygging þjónustu á Íslandi við þau þrjú vinnslusvæði sem líklegt er að verði komin í framleiðslu í kringum 2025. Þau eru hornpunktar svæðis sem ég hef skilgreint sem íslenska orkuþríhyrninginn og nær frá Norðaustur-Grænlandi til Jan Mayen, og suður til Íslands. Á þessum og næsta áratug verða mikil umsvif í rannsóknum og tilraunaborunum. Slík útgerð er flókin, kostar hundruð milljarða og þarfnast mikillar þjónustu. Síðustu ár hef ég unnið dyggilega að því að ná upp samstöðu með Grænlendingum og Norðmönnum um að langskynsamlegast er að vinna með Íslendingum að því að byggja upp þjónustu við vinnslusvæðin í orkuþríhyrningnum hér á Íslandi. Það eitt mun gjörbreyta efnahag Íslands, útrýma atvinnuleysi og skapa meiri auð fyrir þjóðina en hún hefur áður þekkt.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×