Skoðun

9 prósenta sátt

Ingólfur Harri Hermannsson skrifar
Í hátt í 70 ár hafa stjórnmálaflokkar reynt að ná sátt um nýja stjórnarskrá. Þeir hafa jafnvel náð að gera nokkrar breytingar í sátt og nokkrar aðrar í bullandi ósátt en að stærstum hluta er stjórnkerfið óbreytt frá stofnun lýðveldisins, þrátt fyrir ótal stjórnarskrárnefndir, vegna þess að flokkarnir hafa aldrei getað komið sér saman um heildarendurskoðun á stjórnarskránni.

Núverandi stjórnarskrá hefur boðið okkur upp á vinaráðningar í æðstu embætti, óskýrt hlutverk forsetans, upplýsingalög sem hafa leynd sem meginreglu, misvægi atkvæða og þjóðþing sem er rúið trausti.

Þess vegna var gerð krafa um nýja stjórnarskrá eftir hrunið. Þessa kröfu tóku allir flokkar undir í kosningunum 2009 og eftir kosningar náðu þeir sátt um að setja ferli stjórnarskrárbreytinga af stað.

Ferlið byrjaði með því að þúsund Íslendingar komu saman og ræddu um hvað þeir vildu sjá í nýrri stjórnarskrá. Á meðal niðurstaðna var að náttúruauðlindir ættu að vera í þjóðareign, að bjóða ætti upp á persónukjör og að jafna ætti vægi atkvæða.

Öllum boðin þátttaka

Síðan tók Stjórnlagaráðið við boltanum. Það tók bæði það sem kom frá Þjóðfundinum og það sem komið hafði frá öllum þeim stjórnarskrárnefndum sem hafa starfað frá lýðveldisstofnun. En það sem var einstakt við vinnubrögð Stjórnlagaráðs var að öllum Íslendingum var boðið að taka þátt í ferlinu. Um leið og tillögur komu fram gat almenningur rætt þær og komið með athugasemdir og ábendingar. Ráðsmenn tóku virkan þátt í umræðunum og tóku tillit til þeirra athugasemda sem fram komu.

Þetta er nokkuð sem bæði erlendir fjölmiðlar og erlendir fræðimenn hafa hrósað ráðinu sérstaklega fyrir. Ráðið afgreiddi síðan tillögur að nýrri stjórnarskrá í algjörri sátt.

Það náðist hins vegar ekki sátt um það á þinginu að þjóðin fengi að kjósa um tillögurnar samhliða forsetakosningum sl. sumar og tryggja þannig góða þátttöku. Það þykir nefnilega gott ef það næst þriðjungs kosningaþátttaka í þannig sérkosningum og margir bjuggust ekki við nema fjórðungs þátttöku.

Skrifuð fyrir þjóðina

En þjóðin sýndi að stjórnarskráin skiptir hana máli. Helmingur kjósenda mætti á kjörstað og yfirgnæfandi meirihluti samþykkti nýja stjórnarskrá Stjórnlagaráðs. Enn fleiri samþykktu að beita ætti persónukjöri í meira mæli. Tveir þriðju hlutar vildu jafnt vægi atkvæða og heil 84% vildu að náttúruauðlindir yrðu í þjóðareign. Þetta mundu flestir segja að væri nokkuð góð sátt.

En sáttin nær ekki inn á Alþingi. Þar þrátta flokkarnir og krefjast þess að reynt verði að ná sátt á meðal stærstu stjórnmálaflokkanna. Stjórnmálaprófessor af hægri vængnum bætir því við að stjórnarskrárbreytingar þyrfti helst að samþykkja með tveimur þriðjuhlutum þingmanna svo sátt sé tryggð á þingi sem 9% þjóðarinnar bera traust til.

En stjórnarskráin er ekki skrifuð fyrir þingið og þaðan af síður fyrir flokkana. Hún er fyrir okkur hin, þjóðina.




Skoðun

Sjá meira


×