Innlent

Enn beðið umsagna um nýja stjórnarskrá

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Fundað um stjórnarskrá
Fundað um stjórnarskrá
Ákveðið var að fresta því að afgreiða frumvarp um stjórnarskrá úr nefnd í gær. Tvær þingnefndir eiga eftir að skila af sér umsögn um málið. Nefndarformaður vill hefja þingumræðu sem fyrst, hægt sé að semja um breyttan ræðutíma ef með þarf.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ákvað á fundi sínum í gær að fresta því að afgreiða frumvarp um nýja stjórnarskrá til annarrar umræðu. Stefnt var að því að gera það í gær og hefja umræðu á þingi um málið á morgun, en tvær nætur þurfa að líða frá framlagningu máls til umræðu.

Sjálfstæðis- og framsóknarmenn höfðu gagnrýnt mjög fyrirætlun um að afgreiða málið úr nefnd, en þeir funduðu með fulltrúum Samfylkingarinnar um málið á mánudag. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, segist hafa rætt þetta við nefndarmenn á fundinum í gær þar sem enn vantaði álit nokkurra þingnefnda. „Fólk var samþykkt því að fresta því að afgreiða málið. Það er því ekki ákveðið hvenær það verður tekið úr nefndinni." Stjórnskipunarnefndin leitaði álits annarra þingnefnda um þá þætti í stjórnarskrá sem hefðu áhrif á þeirra verksvið. Enn eiga þingskaparnefnd og forsætisnefnd eftir að skila áliti sínu og óvíst hvenær það verður. „Ég skil ekki af hverju ekki er komið álit frá forsætisnefnd, en þingskaparnefnd fundar annað kvöld [í kvöld] og ég vona að þau klári málið þá, en veit það þó ekki fyrir víst," segir Valgerður.

Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, var gagnrýninn á málið eftir fundinn á mánudag. Hann segir að álit sumra nefndanna sé í formi ábendinga um hluti sem þurfi að skoða betur. „Í fjárlaganefnd var tekin ákvörðun um að kalla ekki inn sérfræðinga á verksviði nefndarinnar, en skrifa álit og vekja athygli á því sem þarf að skoða. Það væri þá stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að gera það, en það hefur ekki verið gert." Valgerður segist hins vegar ekki skilja það að ekki megi hefja aðra umræðu þó enn vanti nefndarálit. „Það er hægt að byrja og ræða málin og halda vinnunni áfram. Það má semja um lengd ræðutíma ef með þarf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×