Innlent

Athuga tengsl við aðra níðinga

Úrskurðaður í gæsluvarðhald Lögregla segir Karl Vigni hafa verið samvinnuþýðan í yfirheyrslum undanfarna daga.fréttablaðið/Anton
Úrskurðaður í gæsluvarðhald Lögregla segir Karl Vigni hafa verið samvinnuþýðan í yfirheyrslum undanfarna daga.fréttablaðið/Anton
Meðal þess sem lögreglan rannsakar í tengslum við mál Karls Vignis Þorsteinssonar er hvort hann hafi átt í samskiptum við aðra barnaníðinga í gegnum tíðina í þeim tilgangi að skiptast á upplýsingum eða efni. Lögreglan lagði hald á ýmis gögn í húsleit hjá Karli Vigni fyrr í vikunni, en þau eru nú til rannsóknar.

Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar, segir lögregluna ekki hafa haft neinar spurnir af Karli Vigni síðan árið 2007, fyrr en Kastljós lét upptökur af honum þeim í té.

Tveir til viðbótar lögðu fram kæru gegn Karli Vigni í gær og eru þá formlegar kærur gegn honum vegna ófyrndra brota orðnar fimm talsins. Um er að ræða einstaklinga yfir átján ára aldri af báðum kynjum. Ljóst er að brotin eru greinilega ekki fyrnd og frekar nýleg, eins og Björgvin orðar það.

Hann segir Karl hafa verið samvinnuþýðan í skýrslutökum, en hann hefur ekki verið yfirheyrður síðan hann var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald á þriðjudag. Nú vinnur lögregla að því að yfirheyra vitni og þolendur.

Fleiri þolendur brota Karls Vignis hafa haft samband við lögreglu undanfarna daga en talið er að mál þeirra séu fyrnd.

„Við eigum eftir að skoða þau mál. Svo það er margt í farvatninu,“ segir Björgvin. „Rannsókninni miðar ágætlega. Þetta er umfangsmikið mál og við verðum að stíga varlega til jarðar og gaumgæfa alla þætti málsins.“- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×