Kári Steinn verður í eldlínunni á sunnudaginn þegar keppt verður í hálfum járnmanni í Hafnarfirði. Um er að ræða Íslandsmótið í þríþraut í vegalengdinni. Mest alvara er í einstaklingsflokki þar sem keppendur sjá um allar þrautirnar sjálfir en stemmningin er einnig mikil í liðakeppninni. Kári Steinn er með sterka félaga í sínu liði.
Þannig mun Jón Margeir Sverrisson, Ólympíumeistari í flokki þroskahamlaðra í 200 metra skriðsundi, synda sundlegginn og María Ögn Guðmundsdóttir, hjólreiðakona síðasta árs, sjá um reiðhjólalegginn.

„Þetta er fyrst og fremst til gamans. Maður ætlar ekkert að toppa í þessu hlaupi eða svoleiðis," segir Kári Steinn sem hafnaði í 42. sæti í maraþonhlaupi karla á Ólympíuleikunum á síðasta ári.
„Ég legg þó meira upp úr þessu í ár en í fyrra þegar þetta var eingöngu til gamans," segir Kári Steinn.

„Hjólaleggurinn vegur þyngt. Það er lengsti leggurinn þannig að menn vinna hlutfallslega upp mestan tíma þar," segir Kári Steinn.
Fróðlegt verður að fylgjast með keppni í hjólreiðunum en svo skemmtilega vill til að fremsta hjólreiðafólk landsins, Hafsteinn Ægir og María Ögn, eru par.
Allar frekari upplýsingar um keppnina má finna á heimasíðu 3SH. Skráningu í keppnina lýkur í dag klukkan 18.