„Þetta eru árlegir tónleikar sem ég held í sveitinni minni,“ segir Bubbi Morthens tónlistarmaður, sem heldur árlega tónleika í Félagsheimilinu Dreng í Kjós á föstudagskvöld.
Hann kemur þar fram einn með gítarinn en stemmningin á tónleikunum þykir einkar skemmtileg. „Það er alltaf skemmtileg og kósý stemmning sem myndast á tónleikunum í sveitinni,“ bætir Bubbi við.
Bubbi heldur ferna tónleika á næstunni en viðkomustaðirnir eru Félagsheimilið Drengur í Kjós 18. október, Grindavíkurkirkja 25. október, Selfosskirkja 1. nóvember og svo loks Fríkirkjan í Hafnarfirði 7. nóvember.
Um þessar mundir er Bubbi einnig að leggja lokahönd á jólaplötu sem kemur út á næstu vikum. „Hún fer að detta í búðir á næstu vikum en á plötunni verða eingöngu frumsamin lög,“ segir Bubbi um plötuna.
Hægt er að nálgast miða á tónleika Bubba á midi.is.
Bubbi í sveitinni með gítarinn
