Innlent

Kolgrafafjörður kjaftfullur af síld sem má ekki veiða

Heimir Már Pétursson og Kristján Hjálmarsson skrifar
Síldin í Kolgrafafirði í fyrra
Síldin í Kolgrafafirði í fyrra mynd/vilhelm
Kolgrafafjörður er fullur af síld fyrir innan brú þriðja árið í röð en sjómenn á minni bátum hafa ekki heimild til að veiða hana. Pálmi Stefánsson skipstjóri á Kidda RE sem er átta tonna trilla, er þessa stundina fyrir innan brú á bát sínum.

„Hér er komin síld innfyrir. Við höfum siglt yfir um það bil 10 faðma þykkar torfur. Við erum á leið út fyrir brúna núna þar sem við erum með netin okkar en skruppum inn fyrir til að tékka á hvort þar væri síld,“ segir Pálmi Stefánsson skipstjóri.

Í fyrrahaust drápust um 50 þúsund tonn af síld innan við brúna í Kolgrafafirði og svipað magn árið á undan. Sjávarútvegsráðherra gaf smábátum nýlega 300 tonna viðbótarkvóta á síld, þannig að það hrekkur ekki til ættu smábátar nú að reyna að veiða sem mest af síldinni fyrir innan brú til að koma í veg fyrir umhverfisslys.

En þyrfti ekki að veiða hana áður en hún drepst?

„Við megum það ekki. Þetta er allt kvótabundið og ráðherrann hleypir okkur ekki í hana. Hann hefur nú þegar um tólfhundruð tonn til að úthluta en hann vill ekki úthluta meiru,“ segir Pálmi.

Þannig að þótt menn sjái síldina sprikla innan við brúna mega þeir ekki veiða hana.

„Nei, nei. Hún má bara drepast þar,“ segir Pálmi.

Bjarni Sigurbjörnsson, bóndimynd/vilhelm
Ekki góðar fréttir segir bóndi

„Ég sé bátinn út um gluggann. Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir mig," segir Bjarni Sigurbjörnsson, bóndi á Eiði í Kolgrafarfirði. 

„Hann spáir líka dauðalogni og blíðu, það er ekki gott.“ En það eru góð skilyrði fyrir súrefnisskorti í sjónum fyrir innan brúna.

Að sögn Bjarna tekur nú við viðbragðsáætlun um hreinsun og björgun verðmæta. Ekki sé komin upp áætlun til að koma í veg fyrir sama slys og varð í fyrra þegar nokkur þúsund tonn af síld urðu innlyksa í Kolgrafarfirði.

„Það tekur allt svo langan tíma í kerfinu. Það hefði að sjálfsögðu átt að gera þetta í sumar en svo urðu ráðherraskipti og þess háttar. Við sitjum í þessum samráðshópi þar sem er verið að ræða þessi mál. Það væri alveg hægt að ráðast í einhverjar aðgerðir en spurningin er bara hvaða aðgerðir. Nú erum við að falla á tíma - síldin er komin,“ segir Bjarni.

„Það eina sem ég get gert er að undirbúa komu síldarinnar - hringja í menn og reyna að bjarga því sem bjargað verður í fyrramálið. Áður en síldin verður að drullu,“ segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×