Lífið

„Ég djamma alveg edrú“

Gunnar Leó Pálsson skrifar
„Þegar maður lifir eingöngu á tónlistinni er maður opnari fyrir alls konar verkefnum,“ segir söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir sem hefur verið ansi sýnileg undanfarið á hinum ýmsu viðburðum, einng syngur hún vinsælasta lag landsins um þessar mundir. „Ég drekk ekki, það fer nú eftir því hvernig fólk túlkar það að djamma. Ég djamma alveg edrú,“ segir Jóhanna Guðrún létt í lundu aðspurð um hvort textinn eigi við sig.

Lagið, Mamma þarf að djamma eftir Baggalútsmenn, er orðið að nokkurs konar þjóðsöng og ákaflega vinsælt um þessar mundir. „Þetta er hressandi og skemmtilegt lag en ég bjóst nú samt ekki við því að það yrði svona rosalega vinsælt.“ Jóhanna Guðrún segir það hafa verið mjög gaman að vinna með Baggalútsmönnum. „Þeir eru rosalega skemmtilegir og hæfileikaríkir.“

Hún kemur mikið fram með hljómsveitinni um þessar mundir. „Ég kem mikið fram með þeim á næstunni, á alls kyns skemmtunum og mannfögnuðum.“ Þess má til gamans geta að það er orðið uppselt á ellefu tónleika Baggalútsmanna sem fram fara í Háskólabíó og í Hofi.

Jóhanna Guðrún hefur einnig talsvert komið fram á dansleikjum undanfarið. „Ég söng aldrei á böllum hérna áður fyrr, enda er ég bara 23 ára gömul, en núna hef ég gert svolítið af því og finnst það rosalega gaman.“ Hún hefur komið fram með hinum og þessum hljómsveitum. „Oftast er bara hringt í mig þegar það vantar söngkonu á dansleiki og ég kem þá inn og tek nokkur lög. Það er eiginlega skemmtilegast að syngja diskóslagarana á böllum.“

Jóhanna Guðrún er ásamt kærastanum sínum, Davíð Sigurgeirssyni, nú að grúska í efni sem gæti litið dagsins ljós á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.