Fótbolti

Nauðsynlegur leikur fyrir liðið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Lars Lagerbäck þarf að huga að mörgu varðandi landsleikina gegn Sviss og Albaníu í september. Leikurinn í kvöld mun svara mörgum spurningum.
Lars Lagerbäck þarf að huga að mörgu varðandi landsleikina gegn Sviss og Albaníu í september. Leikurinn í kvöld mun svara mörgum spurningum. Fréttablaðið/STEFÁN
Íslenska landsliðið í knattspyrnu mætir því færeyska í vináttulandsleik á Laugardalsvelli í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.45. Liðið undirbýr sig nú af kappi fyrir mikilvæga leiki gegn Sviss og Albaníu í byrjun september. Þeir eru hluti af undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fer í Brasilíu árið 2014.

„Það er alltaf mikilvægt að hitta leikmennina og fá hópinn saman,“ sagði Lars Lagerbäck landsliðsþjálfari í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Við erum að undirbúa okkur fyrir leikina gegn Sviss og Albaníu í september og því þurftum við nauðsynlega á þessum leik að halda. Við berum auðvitað mikla virðingu fyrir liði Færeyinga en munum samt sem áður nota þennan leik til að lagfæra ákveðna hluti varðandi okkar spilamennsku fyrir leikina sem fram undan eru í undankeppni HM.“

Tveir nýliðar eru í íslenska landsliðshópnum að þessu sinni en þeir eru Kristinn Jónsson, leikmaður Breiðabliks, og Jóhann Laxdal, leikmaður Stjörnunnar.

„Við eigum örugglega eftir að leyfa mörgum leikmönnum að spreyta sig í leiknum á morgun. Sumir þeirra eru kannski ekki í nægilega góðu standi eftir erfitt undirbúningstímabil hjá þeirra félagsliðum og þá opnast oft tækifæri fyrir aðra að sýna sitt rétta andlit.“

Ísland tapaði fyrir Slóveníu á Laugardalsvelli 7. júní, 4-2, og því þarf að laga margt í leik liðsins fyrir leikina gegn Sviss og Albaníu í undankeppni HM.

„Við þurfum að skoða varnarleik okkar alveg frá fremsta manni til hins aftasta og bæta hvernig liðið verst í heild sinni. Liðið þarf síðan að finna betur fæturna á framherjunum, við erum með frábæra sóknarmenn en þeir verða að fá boltann,“ sagði Lars brattur í gær.

Framherjinn Kolbeinn er alltaf spenntur fyrir landsleikjum.Fréttablaðið/stefán
Það mun mæða mikið á Kolbeini Sigþórssyni hjá íslenska landsliðinu í kvöld en hann mun líklega leiða framlínu liðsins ásamt Alfreð Finnbogasyni.

„Leikurinn leggst bara vel í okkur en þetta verður fínn undirbúningur fyrir Sviss og komandi verkefni,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson, framherji íslenska landsliðsins.

Úrslitin í síðasta leik voru ekki góð en liðið er ekki á þeim buxunum að leggja árar í bát. Nú þegar bestu deildir í Evrópu eru um það bil að hefjast þá er líklega ekkert sérstök tilfinning fyrir alla þá knattspyrnustjóra sem eru starfandi að senda sína bestu leikmenn í vináttuleiki með landsliðum sínum.

Hafa oft strítt stórum þjóðum

„Við erum jákvæðir og þurfum að rífa okkur upp frá síðasta leik. Það er alltaf gaman að spila með landsliðinu og tímasetningin á leiknum er bara í fínu lagi. Menn eru búnir að koma sér í gott form á þessum tíma og það er einfaldlega ekki hægt að fara út í knattspyrnuleiki hræddur um að meiðast, sama hvað leik er um að ræða,“ sagði Kolbeinn.

„Færeyingarnir eru bara mjög seigir og með fínt lið. Þeir hafa oft strítt stórum þjóðum og við förum ekki að vanmeta þá. Ísland þarf að eiga góðan leik til þess að vinna á morgun og við gerum sjálfir þær kröfur að vinna leikinn. Liðið þarf að halda áfram að byggja ofan á þann árangur sem við höfum náð og bæta þá þætti sem þörf er á, bæði varnarlega og sóknarlega. Ég er sjálfur í fínu standi og hef verið alveg laus við meiðsli að undanförnu. Maður vonast alltaf til að ná sem flestum leikjum á hverju tímabili.“

Ísland er í þriðja sæti riðilsins í undankeppni HM, einu stigi á eftir Albönum og fimm stigum á eftir Svisslendingum. Efsta liðið í riðlinum fer beint á heimsmeistaramótið í Brasilíu en þjóðin í öðru sæti fer í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×