Innlent

Borga menningarhúsið sjálfir

Freyr Bjarnason skrifar
Gamla félagsheimilið í Vestmannaeyjum sem breyta á í menningarhús.
Gamla félagsheimilið í Vestmannaeyjum sem breyta á í menningarhús. Mynd/Vestmannaeyjabær
Vestmannaeyjabær greiðir úr eigin vasa endurbætur á gamla félagsheimilinu við Heiðarveg sem á að breyta í menningarhús.

Endurbæturnar hafa kostað 25 milljónir króna og búist er við að um sjö milljónir bætist við kostnaðinn áður en yfir lýkur.

Aðspurður segir Ólafur Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, að peningurinn komi allur af eigin fé bæjarins, enda hafi sveitarfélagið ekki tekið lán í rúm sjö ár. „Húsið hefur í langan tíma liðið fyrir viðhaldsleysi og meginkostnaðurinn við það núna er að bæta aðgengi fatlaðra og gera bragarbót á því sem snýr að eldvörnum,“ segir Ólafur, sem segir verkefnið á kostnaðaráætlun.

Bæjarráð Vestmannaeyja hefur sett á laggirnar stýrihóp um stofnun menningarhúss í bænum. Hópurinn mun aðstoða við að þróa starfsemi gamla félagsheimilisins yfir í menningarhús.

Til stóð að hefja byggingu nýs menningarhúss fyrir um áratug en horfið var frá þeim áformum. Aðspurður hvað það hefði kostað segir Ólafur að uppi hafi verið hugmyndir um að grafa upp svokallað Heimatorg sem fór undir hraun og setja á það glerþak. Kostnaður við það hefði líklega hlaupið á milljörðum króna.

Stefnt er að vígslu nýja menningarhússins á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×