Innlent

Stífur vindur á gamlárskvöld

Freyr Bjarnason skrifar
Hiti verður rétt fyrir ofan frostmark fyrir sunnan á gamlársdag.
Hiti verður rétt fyrir ofan frostmark fyrir sunnan á gamlársdag. Fréttablaðið/Pjetur
Útlit er fyrir svolítið stífan vind víðast hvar á landinu á gamlárskvöld og einhverri úrkomu, aðallega á suðausturhluta landsins.

„Á þriðjudaginn dregur úr frosti fyrir norðan og hiti verður rétt fyrir ofan frostmark fyrir sunnan á gamlársdag,“ segir Hrafn Guðmundsson, vakthafandi veðurfræðingur.

Hvað næstu daga varðar telur Hrafn að norðanáttin sé ekki að fara að ganga niður strax. „Það hvessir aftur í fyrramálið [í dag] vestanlands með meiri snjókomu fyrir norðan. Síðan hvessir á öllu landinu seinni partinn. Hún er ekki alveg búin að segja sitt síðasta þessi mikla lægð sem er núna milli Íslands og Noregs, þótt hún hafi grynnst talsvert.“

Vegurinn milli Ísafjarðar og Súðavíkur verður áfram lokaður fyrir allri umferð vegna snjóflóðahættu og litlar líkur eru á því að hann verði opnaður á morgun ef veðurspá gengur eftir.

Rafmagn fór af á nokkrum stöðum á landinu á aðfangadag sökum óveðurs, þar á meðal á Laugum í Reykjadal. „Þetta eru bestu jólin frá því að ég var barn,“ sagði Örlygur Hnefill Örlygsson, hótelstjóri á Húsavík, sem opnaði jólapakkana við kertaljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×