Innlent

Þrjú prósent erlendra ferðamanna í flug

Brjánn Jónasson skrifar
Innanlandsflug til Suð-Vesturhornsins hefur hingað til farið að nær öllu leyti um Reykjavíkurflugvöll.
Innanlandsflug til Suð-Vesturhornsins hefur hingað til farið að nær öllu leyti um Reykjavíkurflugvöll. Fréttablaðið/Pjetur
Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja vinnur nú að úttekt á því hvort hagkvæmt sé að bjóða upp á innanlandsflug frá Keflavíkurflugvelli. Vinnu við úttektina á að ljúka í byrjun febrúar.

„Við erum ekki að horfa til þess að Reykjavíkurflugvelli verði lokað, heldur hvort við getum boðið upp á breiðari vörulínu í innanlandsflugi,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Heklunnar, atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja.

Hún bendir á að miðað við fyrstu upplýsingar sem félagið hafi aflað sér séu aðeins rétt um þrjú prósent farþega með innanlandsflugi erlendir ferðamenn. Þar séu því miklir möguleikar á að stækka kökuna.

„Það kom fram tillaga frá sveitarstjórnarmönnum á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem haldinn var í október þess efnis að það væri kannað hvaða afleiðingar það hefði fyrir okkur ef Reykjavíkurflugvöllur myndi leggjast af,“ segir Berglind.

Einnig verður skoðað hvort mögulegt sé að fá fleiri erlenda ferðamenn til að nýta sér innanlandsflug með því að fljúga frá Keflavíkurflugvelli. Það tengist ekki framtíð Reykjavíkurflugvallar, segir Berglind.

Icelandair hefur boðið upp á flug milli Keflavíkur og Akureyrar yfir sumarið, en innanlandsflug hefur að öðru leyti ekki farið um Keflavíkurflugvöll. Berglind segir að mörgu að huga, enda ekki einfalt að bjóða upp á innanlandsflug frá alþjóðaflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×