Innlent

Hvorugur ætlar frá að hverfa

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Hraunavinir komu sér fyrir í morgun.
Hraunavinir komu sér fyrir í morgun.
Félagar í umhverfisverndunar-samtökunum Hraunavinum ætla að skiptast á að vakta Gálgahraun til að koma í veg fyrir að framkvæmdir við nýjan veg geti haldið þar áfram. Þetta ætla þeir að gera eins lengi og þörf krefur.

Þegar fréttastofu bar að garði í morgun hafði hópur fólks stillt sér upp fyrir framan tvær gröfur sem nota átti til að ryðja vegstæði í gegnum hraunið. Fyrr um morguninn hafði þó verið meiri spenna í loftinu, eins og þetta myndskeiðið frá Ómari Ragnarssyni hér að ofan sýnir. Lögreglan mætti á vettvang um morguninn en aðhafðist ekkert annað en að ræða við fólkið.

Reynir Ingibjartsson, formaður Hraunavina, segir aðgerðirnar í hrauninu kolólöglegar og öll leyfi útrunnin. Hraunavinir hafa sent inn lögbannskröfu á framkvæmdirnar og hefur Reynir fulla trú á að hætt verði við framkvæmdirnar.

Stutt sátt náðist á milli verktakans ÍAV og Hraunavina sem felst í því að verkamenn fresti framkvæmdum í hrauninu sjálfu og snúi sér að öðrum framkvæmdum utan hraunsins fram eftir morgundegi. Hraunavinir ætla engu að síður að fylgjast grannt með stöðu mála og verða á vakt dag og nótt eins lengi og þörf krefur. 

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, sagði í samtali við Stöð 2 að hvergi yrði slakað á framkvæmdunum og þær myndu halda áfram eins og fyrirhugað var á næstu dögum. Það er því ljóst að hvorki Hraunavinir né Vegagerðin ætlar frá að hverfa.


Tengdar fréttir

Sátt milli verktaka og Hraunavina

Sátt hefur tekist á milli verktaka nýs vegar í Gálgahrauni á Álftanesi og Hraunavina sem stöðvuðu framkvæmdir í morgun.

Hraunavinir stöðvuðu framkvæmdir í Gálgahrauni

14 manna hópur á vegum Hraunavina stillti sér upp fyrir framan vinnuvélagar í Gálgahrauni í morgun og komu í veg fyrir vinnuvélar gætu hafið framkvæmdir við nýjan veg.

Hraunavinir ætla að hindra vinnuvélar

Reynir Ingibjartsson og félagar í Hraunavinum eru að stilla sér upp við Gálgahraun. Þeir ætla sér að hindra vinnuvélar í að komast að hrauninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×