Innlent

Hraunavinir stöðvuðu framkvæmdir í Gálgahrauni

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hraunavinir tóku sér stöðu við vinnuvélar í morgun.
Hraunavinir tóku sér stöðu við vinnuvélar í morgun. Mynd/GVA
14 manna hópur á vegum Hraunavina stillti sér upp við vinnuvélagar í Gálgahrauni í morgun og komu í veg fyrir að framkvæmdir við nýjan veg gætu haldið áfram. Ómar Ragnarsson, náttúruverndarsinni, var á meðal þeirra sem tóku sér stöðu fyrir framan vinnuvélarnar og var lögregla kvödd á vettvang í kjölfarið.

Í samtali við Vísi segir Ómar að Hraunavinir ætli sér að standa vaktina í allan dag. Lögreglan mætti á vettvang fyrr í morgun en aðhafðist ekkert frekar en að ræða við báða málsaðila.

„Það er góður andi hjá okkur Hraunavinum. Gröfurnar reyndu að fara af stað í morgun en gáfust upp eftir að við neituðum að gefa eftir,“ segir Ómar. „Það er hálfgerð pattstaða uppi sem stendur eftir að lögreglan mætti en gerði ekkert. Við teljum lögin vera okkar megin og það er með ólíkindum að menn ætli sér að fara út í þessar framkvæmdir þegar málið hefur ekki verið útkljáð fyrir dómstólum.“

Hraunavinir hafa sent inn lögbannskröfu á framkvæmdirnar í Gálgahrauni og er málið nú til afgreiðslu. Framkvæmdir við nýjan veg í Gálgahrauni hófust í lok síðustu viku en vegna andstöðu við málið hafa framkvæmdir ekki komist frekar af stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×