Innlent

Allnokkuð af fénu dautt

Valur Grettisson skrifar
Þessi mynd var tekin við Mývatn í fyrra.
Þessi mynd var tekin við Mývatn í fyrra.
„Þetta er slæmt,“ segir Hallgrímur Þórhallsson, gangnaforingi frá Brekku í Fljótsdal. Hann er nú á hálendinu ásamt öðrum bændum á Jökuldal og í Fljótsdal að leita að sauðfé eftir óveður síðustu daga. Að sögn Hallgríms er eitthvað af fénu dautt. Meðal annars fann hann tvö lömb úti í á og var tófan komin í þau.

„En þetta gengur ágætlega,“ segir hann. Búið er að smala um 600 kindum en talið er að sauðféð sé á þriðja þúsund.

Aðalsteinn Jónsson, bóndi í Klausturseli, sagðist hafa rekist á innan við tíu dauðar kindur á ferð sinni um Klausturselsheiði. Spurður hvort hann telji skaðann mikinn svarar hann því til að það sé ómögulegt að spá um það á þessari stundu. „Þetta skýrist á næstu dögum,“ bætir hann við. Hann segir ellefu menn vera að aðstoða sig við að smala og að allir hafi fundið eitthvað dautt fé. Hann segist þó bjartsýnn á að færra fé sé dautt en óttast var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×