Innlent

Miklar fjárhagslegar byrgðar lagðar á ungt fólk með krabbamein

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Vilhelm
Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess, lýsir yfir miklum áhyggjum af afkomu félagsmanna sinna. Félagið hvetur stjórnvöld til þess að endurskoða kostnaðarþátttöku vegna krabbameinsmeðferðar þannig að Íslendingar standi jafnfætis nágrannalöndum sínum í þessum efnum.

Ungt fólk með krabbamein ber miklar fjárhagslegar byrgðar vegna sjúkdóms síns. Á síðastliðnum 30 árum hefur greiðsluþátttaka krabbameinssjúklinga tvöfaldast. Krabbamein hefur mjög íþyngjandi áhrif á alla fjölskylduna en þó sérstaklega ungar fjölskyldur.

„Ungt fólk er í flestum tilfellum með fjárhagslegar skuldbindingar vegna húsnæðiskaupa, námslána og þ.a.l. og því kemur það illa við fjárhag fjölskyldunnar þegar annar framfærsluaðilinn veikist skyndilega - svo ekki sé talað um það andlega áfall sem fólk verður fyrir við slíkar aðstæður.

Kostnaður við krabbameinsmeðferð og nauðsynleg lyf skiptir hundruðum þúsunda fyrir utan allan afleiddan kostnað eins og sálfræðiþjónustu, sjúkra- og iðjuþjálfun, ferðakostnað og vinnutap, svo eitthvað sé nefnt. Þess eru dæmi að ein fjölskylda hafi greitt um tvær milljónir í beinan og óbeinan kostnað vegna veikinda fjölskylduföðursins á einu ári.

Í velfarðarsamfélagi á enginn að þurfa að stefna fjárhagslegri afkomu sinni í hættu ef hann greinist með krabbamein,“ segir í tilkynningu frá stjórn Krafts.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×