Skoðun

Þekking og þjálfun eykur lífsgæðin

Einar Magnússon skrifar
Ég greindist með mergsjúkdóm í júní 2009. Ég vil vekja athygli á því að það er nauðsynlegt fyrir karlmenn að hitta aðra í sömu sporum í kjölfar greiningar. Það er kúvending á lífinu að greinast algerlega óvænt, andleg líðan sveiflast upp og niður og samskipti við maka og fjölskyldu breytast. Andlega líðan lærði ég að bæta með fræðslu, líkamsrækt og hugleiðslu.

Ég skráði mig á námskeið í Ljósinu fyrir greinda karlmenn ári eftir greiningu. Ég fékk upplýsingar á fundunum frá fólki sem virtist hafa þekkingu og áhuga, ekki endilega á sjúkdómnum sjálfum heldur þekkingu og þjálfun til að auka lífsgæði sín þegar maður hefur greinst með alvarlegan sjúkdóm. Þá fékk ég mikið út úr samverunni í hópnum. Allir voru á svipuðum stað, með sömu vonir og væntingar. Það var líka hlegið smá. Eftir að hafa tekið þátt í fræðslufundunum fór ég að nýta mér önnur úrræði Ljóssins eins og líkamsrækt í Hreyfingu og heilsueflingarnámskeið. Ég fann miklar framfarir, bæði líkamlega og andlega.

Fyrir mig var endurhæfingin í Ljósinu eins og að koma að stóru hlaðborði og um að gera að velja sér af því. Karlanámskeiðin eru fín byrjun, maður fær góðar upplýsingar og vinnur svo úr þeim. Mér finnst hópurinn líka frábær þegar menn fara að kynnast. Mikil samheldni skilningur og glens.

Ég hvet alla karlmenn sem hafa greinst að kynna sér fræðslufundi sem verða á dagskrá í haust í Ljósinu, Langholtsvegi 43, eins og undanfarin ár. Næsta fundaröð hefst mánudaginn 23. september kl. 17.30. Fundaröðin er tíu vikna löng og karlarnir hittast einu sinni í viku. Markmiðið er að þátttakendur fái uppbyggjandi fræðslu og hafi gagn og gaman af að hitta aðra í sömu aðstæðum. Sjá einnig www.ljosid.is.




Skoðun

Sjá meira


×