Fótbolti

Lagerbäck: Færslan á Gylfa inn á miðjuna breytti leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson Mynd/Valli
Lars Lagerbäck, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, fór yfir 4-4 jafnteflið á móti Sviss í dag með íslenskum blaðamönnum en leikmenn og þjálfarar hittu þá fjölmiðla fyrir æfingu sína á Laugardalsvellinum. Ísland mætir Albaníu á Laugardalsvellinum á þriðjudagkvöldið.

Íslenska liðið lenti 1-4 undir á móti Sviss en tryggði sér jafntefli með því að skora þrjú mörk á síðustu 33 mínútum leiksins. Lars Lagerbäck færði Gylfa inn á miðjuna í hálfleik og setti Eið Smára Guðjohnsen fram með Kolbeini Sigþórssyni.

„Ég tel að það sem breytti leiknum fyrir okkur var að við létum Gylfa skipta um stöðu. Gylfi var einstaklega góður í þessum leik, hann hljóp mjög mikið allar 90 mínúturnar en um leið komst hann miklu meira inn í leikinn í seinni hálfleiknum," sagði Lars Lagerbäck.

„Gylfi og Kolbeinn voru báðir frábærir í leiknum og svo skoraði Jóhann Berg þessi þrjú glæsilegu mörk. Það sést á Jóhanni að hann er farinn að byrja næstum því alla leiki með AZ og hann er búin að stíga skref fram á við. Það býr mikið í honum og hann sýndi það með þremur heimsklassaafgreiðslum á móti Sviss," sagði Lagerbäck um Jóhann Berg Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×