Skoðun

Um ábyrgð lækna

Elías Sæbjörn Eyþórsson skrifar
Í Kastljósi þann 24. september sl. ræddi Jóhannes Kr. Kristjánsson við Fjólu Dögg Sigurðardóttur, formann Félags læknanema, og Ásdísi Örnu Björnsdóttur, formann sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, um könnun sem var lögð fyrir nemendur í heilbrigðistengdum greinum við Háskóla Íslands.

Í stuttu máli var niðurstaða hennar að fæstir nemar gátu hugsað sér að vinna á Landspítalanum að loknu námi við núverandi aðstæður. Viðtalið var upplýsandi og ég hvet þig lesandi til að nálgast það á vef Ríkisútvarpsins.

Jóhannes stóð sig ágætlega. Hann spurði viðmælendur sína til skiptis og dró fram þær upplýsingar sem þurfti. Þegar leið á viðtalið varpaði Jóhannes hins vegar fram þeirri spurningu hvort læknum bæri ekki siðferðisleg skylda til að starfa á Íslandi þar sem námið þeirra væri kostað af skattgreiðendum. Þessari skoðun er nær undantekningalaust skotið inn í umræðuna í hvert sinn sem kjaramál lækna eru rædd. Við nánari athugun er hún í besta falli vanhugsuð og má ekki standa óátalin.

Á Íslandi er menntun niðurgreidd af ríkinu. Þjóðfélagið hefur tekið þá ákvörðun að það sé eftirsóknarvert að tryggja rétt allra til náms óháð fjárhag. Þetta samrýmist stefnu þeirra landa sem við viljum helst bera okkur saman við og er að mínu viti skynsamlegt. Hægt er að hafa skoðun á þessari stefnu en það er önnur umræða út af fyrir sig.

Niðurgreiðslan gildir ekki bara um læknisfræði, heldur allar fræðigreinar sem hægt er að nema. Samt sem áður heyrist aldrei sagt um veðurfræðinga, myndlistarfólk eða viðskiptafræðinga að þeim beri siðferðisleg skylda til að starfa á Íslandi eftir útskrift. Enda væri það bersýnilega fáránlegt.

Rót vandans

Nú hugsar þú kæri lesandi: „En Elías, læknanemar kosta meira en aðrir nemar!“ Segir hver? Þrátt fyrir mikla leit finn ég hvergi útreiknaðan meðalkostnað á nemanda eftir námsleiðum. Jafnvel ef þær upplýsingar eru til og læknanemar kosta meira en aðrir þá finnst mér ekki að það séu rök til stuðnings átthagafjötrum. Er einhver hámarksupphæð sem nemi má kosta til þess að hann eigi rétt á að flytja til útlanda í framtíðinni?

Ímyndum okkur að lækni bæri að starfa þar sem skattgreiðendur hafa kostað nám hans. Flestir læknar sérhæfa sig í undirgreinum læknisfræðinnar. Þetta framhaldsnám er ekki í boði á Íslandi í flestum sérgreinum og læknar sækja sér það nám erlendis. Íslenskir skattgreiðendur borga ekkert með því námi. Það gera erlendir skattgreiðendur hins vegar.

Hvar eiga þá læknar að starfa? Hvor siðferðislega skyldan vegur þyngra? Er það bundið við krónutölu?

Ég fellst á það að þessi skoðun er sjaldan úthugsuð. Henni er hent fram í örvæntingu af fólki sem sér hættuna á atgervisflótta lækna en sér engar lausnir á því erfiða vandamáli. Ég þykist ekki vita hvernig má leysa vanda heilbrigðiskerfisins. En það gagnast engum að varpa ábyrgðinni á lækna sem telja sig ekki geta starfað við þær aðstæður sem þeim eru boðnar. Það þarf að taka á rót vandans, ekki á afleiðingunum.




Skoðun

Sjá meira


×