Innlent

Ný tækifæri í siglingaleiðum

Ráðstefnan Arctic Circle stendur yfir í  Hörpu fram á mánudag en þetta er í fyrsta sinn sem fulltrúar frá Suður-Kóreu, Singapore, Alaska, Grænlandi og Kína koma saman ásamt Bandaríkjunum og Evrópu til þess að ræða hagsmuni og nýtingu auðlinda Norðurslóða. Fjöldi fyrirlestra eru á dagskrá en markmiðið er að deila hugmyndum og beina sjónum heimsins að framtíð og fjárhagslegum möguleikum heimsskautsins.

Heimsþekktir leiðtogar á borð við Ban Ki-Moon, Al Gore og Hillary Clinton nýttu sér tæknina og sendu  ráðstefnugestum myndskeið á tölvu.

Töluverðar áhyggjur vísindamanna af hækkun sjávar voru ræddar og áhrif loftslagsbreytinga á næstu árum. Og spennandi möguleikar gætu birst Íslendingum með nýjum mikilvægum siglingaleiðum.

Alice Rogoff, meðstofnandi Arctic Circle, segir að með bráðnun íss muni svokölluð Miðleið opnast yfir norðurpólinn og hægt verði að sigla milli Asíu og Evrópu. Skipin sem komi þessa leið muni enda í vesturhluta Noregs eða austurhluta Íslands. Þetta myndi stytta siglingaleiðir til Asíu töluvert en leiðin gæti þó aðeins verið fær yfir hásumar.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að reyna að koma á tengslum milli margra hagsmunahafa, bæði á opinberum vettvangi eins og hér í Hörpu og einnig að fólk hafi tækifæri til að hittast sem einstaklingar og ræða málin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×