Innlent

Ætla að endurskoða jafnréttismálin

Sunna Valgerðardóttir skrifar

„Við munum fara yfir málin og sjá með hvaða hætti var reynt að takast á við þau og endurmeta það sem ekki hefur skilað tilætluðum árangri,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, verðandi forsætisráðherra, um jafnréttisákvæðið í stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Þar segir að verðandi ríksistjórn muni endurmeta þær aðferðir sem notaðar hafa verið í barátttu fyrir jafnrétti kynjanna með það að markmiði að bæta árangur á sviði jafnréttismála og vinna gegn launamuni kynjanna.

„Sumt hefur skilað árangri, annað hefur skilað minni og því munum við sjá hvað hefur virkað. En okkar markmið er að leiðrétta launamun kynjanna,“ segir Sigmundur.

Í ákvæðinu segir einnig: „Fjárhagslegt sjálfstæði einstaklinga er grundvöllur jafnréttis. Huga þarf að fjárhagslegu sjálfstæði óháð hjúskaparstöðu, sér í lagi þegar kemur að skatta-, lífeyris- og örorkumálum.“

Við þessu segir Sigmundur: „Hugsunin á bak við þetta er sú að fólk sé ekki látið gjalda fyrir ólíka hjúskaparstöðu eða aðra þætti, heldur njóti ákveðinna réttinda sem einstaklingur.

Sáttur með niðurstöðuna

Sigmundur Davíð fór yfir sáttmálann í stórum dráttum á Laugarvatni í dag þar sem hann lagði áherslu á landbúnað, heilbrigðismál, umhverfismál og svo stóra málið; skuldavanda heimilana.

„Ég er ákaflega sáttur við þá niðurstöðu sem við náðum varðandi stöðu heimilana. Það var stóra málið í síðustu kosningum,“ sagði Sigmundur. „Þótt stjórnarsáttmáli sé yfirleitt almennt orðað skjal og ekki margar blaðsíður, sáum við ástæðu til að hafa ítarlegan kafla um skuldamálin. Við munum strax hefja vinnu við þetta, en það mun taka tíma að vinna frumvörp og klára hluti í tengslum við þau.“

Bjarni tók undir með Sigmundi og sagðist afar ánægður með þá lendingu sem formennirnir náðu á fundum sínum.

„Ég er mjög ánægður með að flokkarnir tveir hafi náð saman, sem væri eðlilegt framhald í kjölfar kosninganna,“ sagði hann.

„Við höfum sett réttu forgangsmálin á dagskrá, en við munum heldur ekki færast of mikið í fang. Það eru fjölmörg tækifæri í landinu, en ef ekki er rétta andrúmsloftið í samfélaginu munu okkur ekki auðnast að færast fram og við munum tapa samkeppnisstöðu landsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×