Lífið

Væri ekki á þessum stað án Youtube

Emmsjé Gauti með afraksturinn af árs vinnu: Plötuna Þeyr.
Emmsjé Gauti með afraksturinn af árs vinnu: Plötuna Þeyr. mynd/daníel
„Ég myndi aldrei vera á þessum stað ef ekki væri fyrir netið,“ segir rapparinn Emmsjé Gauti, sem heitir réttu nafni Gauti Þeyr Másson. Myndbönd og lög Gauta hafa notið gríðarlegra vinsælda á vefsíðunni Youtube, til að mynda hefur verið horft á fjögur myndbanda hans yfir hundrað þúsund sinnum hvert.

Gauti hefur lagt mikinn metnað í myndbönd sín og hefur líka verið heppinn með samstarfsaðila, að eigin sögn. „Fyrst og fremst er ég heppinn að eiga góða að, ég hef unnið með ótrúlega skapandi fólki, fólki sem er í heimsklassa. Myndbandagerð skiptir mig miklu máli, þetta er listform sem bætir upplifun fólks á tónlistinni,“ bætir Gauti við.

Í kvöld heldur Gauti útgáfutónleika en önnur breiðskífan hans sem ber titilinn Þeyr kom út fyrir stuttu. Fyrri plata hans, Bara ég, kom út árið 2011. „Agent Fresco spilar undir í flestum lögunum mínum, þannig að þetta verður svolítið rokkað sett,“ útskýrir Gauti og bætir við: „Úlfur Úlfur og Steinar munu sjá um upphitunina, ég er mjög hrifinn af þeim öllum.“ Hægt verður að kaupa diskinn við innganginn og fylgir aðgangsmiði á tónleikana með.

Platan Þeyr hefur verið í vinnslu í um ár, að sögn Gauta. „Maður er alltaf að semja, alltaf að vinna í næstu plötu einhvern veginn. Ég sæki innblástur í daglegt líf, ég er fyrstu persónu rappari; ég rappa mikið um mitt eigið líf. Þannig að bara með því að vakna, ganga út og lifa er ég að vinna í tónlistinni.“

Auk þess að rappa hefur Gauti haslað sér völl sem fjölmiðlamaður, bæði með netsjónvarpsþætti og sem stjórnandi útvarpsþáttar. „Ég lít alveg jafn mikið á mig sem skemmtikraft og tónlistarmann.“

Þrátt fyrir að vera einungis 24 ára gamall á Gauti nokkuð langan rappferil að baki. „Ég kom fyrst opinberlega fram á Rímnaflæði þegar ég var í 8. bekk. Á þeim tímapunkti var ég efins um hvort ég ætlaði mér að leggja rappið fyrir mig. En þegar ég heyrði troðfullan salinn hvetja mig áfram fann ég að ég þyrfti að gera þetta,“ segir Gauti.

Útgáfutónleikarnir fara fram á skemmtistaðnum Harlem og hefjast klukkan 21 í kvöld.

Hér að neðan má sjá myndbandið við lagið Kinky.





Kjartan Atli Kjartansson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.