Innlent

Gefa bókasafnsbækur sem á að farga

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, er ánægður með innbundinn árgang af tímaritinu Skírni frá nítjándu öld sem hann fann á bóka- og blaðamarkaðnum í löndunarhúsinu.
Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, er ánægður með innbundinn árgang af tímaritinu Skírni frá nítjándu öld sem hann fann á bóka- og blaðamarkaðnum í löndunarhúsinu. Mynd/Ólafur Björnsson
„Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi, þar sem fólki gefst nú kostur á að eignast bækur og tímarit frá bókasafni bæjarins.

„Við eigum tvö eintök af sumu og annað er úr sér gengið og hefur ekki hreyfst lengi. Við tökum þann kostinn vegna plássleysis að bjóða fólki að renna í gegn um safnið og það má eiga það sem því líst á,“ segir Gauti.

Bókunum og blöðunum var komið fyrir í löndunarhúsinu 7. nóvember. Markaðinum lýkur á föstudaginn. Gauti segir að framtakinu hafa verið tekið mjög vel.

„Þarna er margt mjög forvitnlegt og það margir komið og haft gaman af að renna í gegn um úrvalið. Þarna eru til dæmis gamlir árgangar af hinum og þessum tímaritum,“ segir Gauti sem sjálfur náði sér einmitt í innbundinn árgang af tímaritinu Skírni. „Ég hafði mjög gaman af því. Ég held að hann sé frá því rétt fyrir nítján hundruð.“

Aðspurður kveðst Gauti ekki óttast að bærinn sé að gefa frá sér einhverjar gersemar. „Nei, starfsfólk bókasafnsins er náttúrlega búið að fara í gegn um þetta. Það sem menn litu á sem gersemar hér í eina tíð er bara orðið fyrir núna,“ segir sveitarstjórinn sem kveður bókasafnið hreinlega hafa verið búið að sprengja utan af sér húsnæðið.

Í löndunarhúsinu geta Djúpavogsbúar gengið að fjölbreyttum bóka- og tímaritakosti sem ekki er lengur pláss fyrir á bókasafninu.Mynd/djupivogur.is
Gauti segist ekki vita hversu mikið af bókum og blöðum hafi verið í boði í löndunarhúsinu. „En þetta fyllti nokkur fiskikör,“ segir hann til að gefa hugmynd um magnið.

Það sem ekki er gengið út á föstudaginn á ekki afturkvæmt í bókasafnið. „Það er synd að þurfa að farga þessu. En ef fólk vill ekki þiggja þetta að gjöf þá er eftirspurnin bara ekki meiri en raun ber vitni,“ segir Gauti sem á von á afganginum verði pakkað og hann sendur í endurvinnslu.

„En ef einhver lesandi vill eiga safnið þá er mönnum það frjálst og sársaukalaust fyrir okkur að senda þetta eitthvert - ef menn borga undir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×