Innlent

Héldu að drengur hefði lent undir bíl á Akureyri

Mikill viðbúnaður var í snarbrattri skógivaxinni hlíð ofan við Akureyrarkirkju á sjöunda tímanum í gærkvöldi, eftir að bíll hafði hafnað á trjám í miðri hlíðinni og óttast var að ungur drengur hefði orðið undir bílnum. Tildrög voru þau að þegar bíl var ekið eftir Eyrarlandsvegi, sá ökumaðurinn hvar ungur drengur stefndi á hann á snjósleða og fékk ekki við neitt ráðið.

Ökumaðurinn sveigði útaf og niður í hlíðina, en varð þess var að pilturinn lenti utan í bílnum. Sá stutti var hinsvegar svo fljótur að forða sér að ökumaðurinn sá hann ekki þegar bíllinn nam staðar og því hélt hann í fyrstu að drengurinn væri undir bílnum.

Björgunarmenn höfðu því mikinn viðbúnað við að hreyfa við bílnum, en engin reyndist undir honum. Skömmu síðar kom faðir drengsins á vettvang og sagði hann hafa komið hlaupandi og dauðskelkaðan heim, og sagt hvers kyns var.

Hann var ómeiddur en ökumaðurinn var fluttur á sjúkrahúsið til skoðunar. Bíllinn er töluvert skemmdur og skemmdir urðu á trjágróðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×