Innlent

Flestum kærum vegna lögreglustarfa vísað frá

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók saman fjölda kærumála vegna starfa lögreglunnar í svari við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók saman fjölda kærumála vegna starfa lögreglunnar í svari við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur.
Frá árinu 2002 hafa alls 302 kærur verið lagðar fram vegna starfa lögreglunnar en eingöngu sextán ákærur gefnar út.

Af þessum kærum hafa 274 málum verið vísað frá, rannsókn máls hætt, mál fellt niður að lokinni rannsókn eða fallið frá saksókn. Tólf mál eru óafgreidd.

Flest málin tengjast handtökum en einnig öðrum atvikum svo sem leit, umferðarlagabrotum og fjárdrætti.

Þetta kom fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Svandísar Svavarsdóttur um kvartanir og athugasemdir við störf lögreglunnar.

Svandís spurði einnig um leiðir sem fólk geti farið til að leita réttar síns telji það lögreglu hafa brotið á sér eða öðrum með störfum sínum. Það er ríkissaksóknari sem rannsakar kærur á hendur lögreglu. Einstaklingur sem vill leggja fram kvörtun, gera athugasemdir eða leita réttar síns getur á næstu lögreglustöð látið taka af sér skýrslu sem lögreglan skráir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×