Innlent

Óánægja læknakandídata eykst

Heimir Már Pétursson skrifar
Aðeins 26 prósent læknakandídata eru ánægðir í starfi hjá Landsspítalanum samkvæmt viðamikilli könnun sem gerð var á spítalanum.

En í fyrra voru 59 prósent læknakandídata ánægðir í starfi. Óánægja í þeirra hópi hefur því vaxið umtalsvert milli ára.

92 prósent læknakadídata telja hins vegar að störf þeirra séu mikilvæg og er það svipað hlutfall milli ára.

Aftur á móti eru aðeins 13 prósent þeirra stoltir af því að vinna á Landsspítalanum, en í fyrra voru 54 prósent læknakandidata stoltir af því að vinna á spítalanum.

Einungis 6 prósent læknakandidata telja að andi framþróunar ríki á þeirra deild, samanborið við 46 prósent í fyrra. 34 prósent lækna án sérsviðs eru ánægðir í starfi, hrynur úr 75 prósentum á síðasta ári.

13 prósent þeirra eru stoltir af því að starfa á Landsspítalanum samanborið við 39 prósent í fyrra og 22 prósent þeirra telja að andi framþróunar ríki á þeirra deild en á síðasta ári töldu 60 prósent lækna án sérsviðs að svo væri.

Þegar tölurnar eru skoðaðar fyrir starfsmenn í heild eru hlutföllin töluvert önnur.

Þá eru 74 prósent ánægðir í starfi nú en í fyrra voru 82 prósent starfsmanna þeirrar skoðunar, 56 prósent starfsmanna eru stoltir af því að vinna á spítalanum borið saman við 70 prósent í fyrra og 62 prósent starfsmanna í heild telja að andi framþróunar ríki á þeirra sviði eða deild en á síðasta ári voru 71 prósent þeirrar skoðunar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×