Fótbolti

Fáir bera virðingu fyrir okkur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Símun í leik með færeyska landsliðinu.
Símun í leik með færeyska landsliðinu. Nordic Photos / Getty Images
Það gekk mikið á í landsleik Svíþjóðar og Færeyja í undankeppni HM 2014 á dögunum. Stórstjarnan Zlatan Ibrahimovic gekk þar fremstur í flokki og gagnrýndi færeyska landsliðið harkalega eftir leikinn, sem Svíar unnu 2-0.

Vísir sló á þráðinn til Símun Samuelsen, fyrrum leikmann Keflavíkur, sem tók þátt í leiknum. Símun, sem á íslenska móður, spilaði yfir fimm tímabil með Keflavík en fór aftur til Færeyja árið 2009. Hann spilar nú með HB Þórshöfn.

„Það gengur allt vel í fótboltanum og við erum í efsta sæti. Þannig að það er allt í góðu þar,“ sagði Símun sem er enn fastamaður í færeyska landsliðinu. Hann kom inn á sem varamaður í umræddum leik gegn Svíum.

„Þetta var svolítið sérstakur leikur,“ segir hann um leikinn á Friends-leikvanginum í Stokkhólmi. Zlatan kvartaði sáran undan færeysku leikmönnunum og sagði að þeir ættu frekar að einbeita sér að því að spila fótbolta en að væla allan leikinn í gegn.

„Hann sagði þetta eftir leikinn. Ég spilaði bara síðasta hálftímann og þá voru menn orðnir nokkuð pirraðir. Zlatan henti til dæmis boltanum í andlit Gunnars Nilsen, markverði okkar.“

Zlatan Ibrahimovic fagnar seinna marki sínu gegn Færeyingum.Nordic Photos / Getty Images
„En við erum ekki lið sem vælir. Ég held að þetta hafi frekar hans afsökun fyrir því að hafa kastað boltanum í andlit andstæðings, enda var hann gagnrýndur nokkuð fyrir það í fjölmiðlum eftir leikinn,“ sagði Símun.

„Við stóðum okkur þokkalega í þessum leik. Þeim gekk illa að skapa sér færi og voru pirraðir yfir því. Við höfðum tapað 6-0 fyrir Austurríki og Svíar eru í keppni við þá um annað sætið í riðlinum. Markatalan skiptir þá því miklu máli.“

Símun segir að Zlatan hefði átt að fá gult fyrir að kasta boltanum í andlit Gunnars. „Hann slapp vel því hefði hann fengið gult hefði hann verið í banni í næsta leik. En þetta er flottur og þekktur leikmaður og því fannst mér þessi ákvörðun hans skrýtin. Það eru fullt af börnum sem líta upp til hans.“

Zlatan skoraði bæði mörkin í sigrinum auk þess að skora eitt og leggja upp annað í 2-1 sigri Svía á Færeyjum fyrr í riðlakeppninni. „Það munar gríðarlega miklu um hann í þessum leikjum en það er ekki hægt að segja að hann hafi borið neitt sérstaklega mikla virðingu fyrir okkur. Það gera ekki heldur flest lið sem við spilum við.“

Símun í baráttu við Marco Reus.Nordic Photos / Getty Images
„Við erum fámenn þjóð og enn að byggja upp okkar landslið. Það vita allir hvernig leikmaður hann er - hann ber kannski ekki mikla virðingu fyrir mörgum. Viðhorf hans gagnvart okkur kom því ekki á óvart.“

Þýskaland er einnig í sama riðli í undankeppni HM 2014. Sú gagnrýni hefur komið upp þar í landi að stórveldi á borð við Þjóðverja þurfi að spila gegn smáríkjum eins og Færeyjum. Það væri nær að litlu þjóðirnar tækju þátt í sérstakri forkeppni til að komast í undanriðlana með stóru þjóðunum.

„Okkur fannst leiðinlegt að heyra þetta en þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona raddir heyrast. Okkur finnst skemmtilegt að spila þessa leiki og það er draumurinn hjá manni að fá að spila gegn stóru þjóðunum. Stundum tekst okkur að næla í stig gegn þeim.“

„Maður skilur vel þeirra afstöðu en svona er bara fótboltinn. Stundum þarf að spila gegn verri liðum og svona lagað á ekki að skipta máli. Sem betur fer virðist UEFA ekki vera að hlusta á þessar raddir enda myndi fótboltinn í þessum löndum líða mikið fyrir það að fá ekki þessar stóru þjóðir í heimsókn til sín.“

Símun í leik með Keflavík gegn Fram árið 2008.Mynd/Daníel
Í lokin berst talið að íslenska boltanum en Símun fylgist vel með honum. „Ég les allar helstu fréttasíðurnar og horfi á Pepsi-mörkin á Vísi þegar ég get. Ég fylgist auðvitað vel með Keflavík,“ segir hann en á ekki von á því að snúa aftur til Íslands í bráð.

„Nei, ætli það nokkuð,“ segir hann í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×