Innlent

Einherjar í víking í Hljómskálagarðinum

Hingað til hafa víkingahátíðir verið haldnar í Hafnarfirði, en ekki er talið að hátíð í Reykjavík myndi hafa áhrif á hana. fréttablaðið/ernir
Hingað til hafa víkingahátíðir verið haldnar í Hafnarfirði, en ekki er talið að hátíð í Reykjavík myndi hafa áhrif á hana. fréttablaðið/ernir
Allt útlit er fyrir að ný víkingahátíð, Ingólfshátíð, verði haldin í Hljómskálagarðinum dagana 13. og 14. júlí í sumar. Nafnið vísar til landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar, en fyrsta hátíðin verður tileinkuð ljósmyndaranum Ingólfi Júlíussyni, sem lést úr hvítblæði í apríl. Borgarráð á eftir að taka málið fyrir en Höfuðborgarstofa, menningar- og ferðamálasvið og umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar hafa tekið vel í hugmyndina.

Á hátíðinni verða sett upp sjö víkingatjöld og í þeim verður sýnt handverk og annað sem tilheyrir víkingum og landnámsöld. Ýmsar íþróttar verða sýndar, til að mynda kraftakeppni, glíma, bogfimi og eldsmíði. Sex sérþjálfaðir hestar munu sýna listir sínar ásamt þjálfurum sínum og ætlunin er að hafa veitingasölu í garðinum. Hátíðin verður öllum opin.

„Við höfum staðfasta trú á því að hátíð þessi sé tækifæri fyrir Reykjavík og ekki síst fyrir ferðaþjónustuna í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Sá víkingur gaf í raun borginni nafn og skjaldarmerki borgarinnar er hannað út frá landnámi hans,“ segir í tillögu víkingafélagsins Einherja um málið.

Félagar í Einherja hafa sótt víkingahátíðir í öðrum löndum undanfarin ár og kynnt sér hvernig þessum málum er háttað þar. Þá segja þeir að á hátíðina í Reykjavík hafi boðað komu sína ýmsir erlendir víkingar, með mikla reynslu í uppsetningu víkingahátíða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×