Lífið

Palli svarar ólöglegu umræðunni

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Páll Óskar Hjálmtýsson segir diskasafn sitt vera innlegg í umræðuna um ólöglegt niðurhal.
Páll Óskar Hjálmtýsson segir diskasafn sitt vera innlegg í umræðuna um ólöglegt niðurhal. mynd/einkasafn
„Þetta diskasafn er mitt innlegg í umræðuna um ólöglegt niðurhal,“ segir tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson en hann hefur nú gefið út sex diska safn. Þetta eru allt diskar sem hann hefur gefið út sjálfur hjá fyrirtæki sínu, POP, sem hann stofnaði árið 1995.

„Ég hef heyrt ágæta lausn við niðurhalinu. Gerið gott efni, gerið efnið aðgengilegt á internetinu, á öllum litakerfum og formum, samdægurs út um allan heim. Síðast er, bjóðið upp á efnið á sanngjörnu verði,“ útskýrir Páll Óskar.

„Ég býð þrjá diska á verði eins og sex diska á verði tveggja, mér finnst það vera sanngjarnt. Fólk gefur heldur ekki niðurhlaðna tónlist í jólagjöf, geisladiskar og vínylplötur eru hins vegar virkilega falleg í jólapakkann.“

Páll Óskar segist ekki hafa horft á sjónvarp í tólf ár en ef út komi sjónvarpssería sem hann heillast af, kaupi hann hana á DVD og horfi á hana alla í einu.

„Ég hala ekki niður þætti ólöglega á netinu og svo hef ég ekki þolinmæði til að bíða eftir næsta þætti í viku. Það þýðir líka ekkert að svæðisskipta til dæmis Blu-ray eða DVD-diskum, þar sem internetið og heimurinn allur er í raun nú þegar orðinn eitt stórt svæði. Eina vesenið við þessa draumsýn eru höfundarrétturinn.“

Páll Óskar stefnir á að gefa út nýtt efni á næsta ári og gerir ráð fyrir að fyrsta lagið fari í spilun í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.