Lífið

Vinnur með Samuel L. Jackson

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér er Egill með Samuel L. Jackson á lokakvöldi golfmóts sem Jackson heldur.
Hér er Egill með Samuel L. Jackson á lokakvöldi golfmóts sem Jackson heldur.
Egill Björnsson rekur viðburðafyrirtækið T-Street í London, sem er eins konar systurfélag Tjarnargötu, íslenska framleiðslufyrirtækisins. Hann hefur starfað með Samuel L. Jackson og fyrir knattspyrnufélagið Chelsea.

„Samuel L. Jackson heldur golfmót til styrktar ýmsum góðgerðarsamtökum. Lokahnykkur mótsins er svo kvöldverður og skemmtun tengd honum. Við tökum kvöldið upp á myndband og sjáum um hljóðvinnu,“ segir Egill. Starfið með Chelsea snýst meðal annars um verðlaunaafhendingu sem sýnd er á Chelsea TV, sjónvarpsstöð félagsins.

„Við sjáum um grafíska vinnu í útsendingunni og veitum ýmiss konar tæknilegan stuðning. Annars störfum við mikið á Stamford Bridge [heimavelli Chelsea]. Þar eru alls kyns viðburðir og flottur tónleikastaður á neðstu hæðinni í eigu Romans Abramovich,“ segir Egill. Hann segir aðstöðuna þar vera frábæra. „Allar græjur þarna eru af bestu gerð, þarna hefur greinilega verið keypt inn það dýrasta og besta.“

Samstarfsfélagar Egils í T-Street bera Jose Mourinho vel söguna. „Knattspyrnustjórar hafa auðvitað komið og farið hjá Chelsea undanfarin ár. En mér er sagt að Mourinho sé eini gæinn sem tekur í spaðann á almennum starfsmönnum,“ segir Egill.

Samhliða kvikmyndanáminu, sem var dýrt að hans sögn, aðstoðaði Egill fólk við uppsetningu á viðburðum og ákvað að stofna fyrirtæki í tengslum við Tjarnargötu. Nóg er af verkefnum hjá Agli, en jólavertíðin er stór í London. „Jólin byrjuðu í nóvemberbyrjun hérna. Það verður nóg að gera alveg fram á jóladag,“ segir Egill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.