Lífið

Skraflþyrstir Íslendingar fagna

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sigrún Helga Lund er ánægð með netútgáfu Skraflsins.
Sigrún Helga Lund er ánægð með netútgáfu Skraflsins. Fréttablaðið/Vilhelm
Skraflþyrstir Íslendingar geta nú svalað þorsta sínum á netinu, en Skraflfélag Íslands hefur opnað vefsvæði þar sem hægt er að spila leikinn vinsæla á íslensku. Sigrún Helga Lund, einn af meðlimum Skraflfélagsins, segir aðdraganda útgáfu netleiksins stuttan.

„Norska skraflkempan Taral Seierstad kom hingað til lands í tengslum við Íslandsmótið í skrafli fyrr í mánuðinum. Við komumst að því að hann hafði forritað netútgáfu skrafls á norsku. Við fengum hann til þess að nota norska gagnagrunninn og setja inn íslenskuna í staðinn,“ segir Sigrún. Oft er talað um að íslenskan sé flókið mál og fjöldi orða og orðmynda í skraflinu rennir stoðum undir þær tilgátur.

„Taral hélt að við hefðum gert einhver mistök, því hann fékk 2,2 milljónir orða og orðmynda. Til samanburðar eru þær þrjú hundruð þúsund í ensku og fjögur hundruð þúsund í norsku,“ útskýrir Sigrún. Skraflfélagið fékk að notast við gagnagrunn Stofnunar Árna Magnússonar. „Kristín Bjarnadóttir ritstjóri Beygingarlýsingar íslensks nútímamáls, var okkur innan handar. Þaðan fengum við stóran hluta orða og orðmynda sem við þurftum í netleikinn, en við þurfum að bæta við óbeygjanlegum orðum,“ segir Sigrún.

Skraflfélag Íslands er vaxandi samtök og hittast meðlimir reglulega. „Við hittumst fyrsta miðvikudag hvers mánaðar á Café Haítí klukkan 20. Næsti hittingur er einmitt næsta miðvikudag og eru allir velkomnir,“ segir Sigrún. Hægt er að spila netútgáfu skraflsins á slóðinni ordaleikur.appspot.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.