Enski boltinn

Ég er gáfaðri en stuðningsmennirnir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Joe Kinnear, nýráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá Newcastle, hefur verið ófeiminn við að segja sínar skoðanir í fjölmiðlum.

Kinnear stýrði Newcastle í nokkra mánuði á tímabilinu 2008-9 en sú ráðning kom mörgum á óvart þar sem hann hafði ekki starfað í þjálfun í nokkur ár. Á þeim mánuðum sem hann stýrði liðinu lét hann ýmis óvitur orð falla í samtali við fjölmiðla.

Hann er nú kominn aftur til félagsins og byrjaður að láta til sín taka í fjölmiðlum. Hann var í viðtali hjá talkSPORT þar sem hann var spurður út í neikvæð viðbrögð stuðningsmanna Newcastle við ráðningu hans.

„Ég hef heyrt ýmisleg kjánaleg ummæli frá þeim. Til dæmis hvað ég hefði fram að færa,“ sagði Kinnear.

„Ég get til dæmis rætt við hvaða knattspyrnustjóra sem er í heiminum. Ég hef rætt við Alex Ferguson alla mína ævi, viku eftir viku. Ég get tekið upp símann hvenær sem er og hringt í Arsene Wenger eða hvaða stjóra sem er í hvaða deild sem er,“ sagði Kinnear enn fremur.

„Ég veit ekki hvað þessir stuðningsmenn vilja. Sumir tala með afturendanum. Ég sætti mig ekki við þetta, það er svo einfalt. Ég er svo sannarlega gáfaðri en þeir.“

Kinnear fór einnig illa með nöfn nokkurra starfsmanna og leikmanna Newcastle í umræddu útvarpsviðtali, svo sem Llambezee [Llambias], Kebab [Cabaye], Amenobee [Ameobi] og Ben Afre [Ben Arfa].

Hann eignaði sér einnig að hafa keypt markvörðinn Tim Krul, sem kom til Newcastle í stjórnartíð Graeme Souness, og James Perch sem Chris Hughton keypti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×