Enski boltinn

Liverpool bauð í leikmann Sevilla

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Luis Alberto í leik með Sevilla.
Luis Alberto í leik með Sevilla. Nordic Photos / Getty Images
Spænska liðið Sevilla hefur staðfest að félagið hafi fengið tilboð frá Liverpool í Luis Alberto, tvítugan sóknartengilið.

Alberto var í láni hjá B-liði Barcelona á síðasta tímabili og forráðamenn Liverpool hafa fylgst vel með honum. Samkvæmt enskum miðlum er tilboð Liverpool sagt vera upp á sex milljónir punda eða 1,1 milljarð króna.

Alberto getur spilað hvar sem er í sóknarlínunni eða sem fremsti miðjumaður. Hann mun vera áhugasamur um að ganga til liðs við Liverpool eftir að Barcelona ákvað að nýta sér ekki kauprétt á honum eftir að lánssamningnum lauk.

Forráðamenn Liverpool eru vongóðir um að kaupin gangi í gegn en Sevilla-menn vilja fá meira.

„Við ætlum ekki að neita því að það er áhugi frá Liverpool. Leikmaðurinn fékk gott tilboð en hann er enn okkar leikmaður. Fyrsta tilboðið var mjög gott en við erum ekki enn algjörlega sáttir,“ sagði Monchi, yfirmaður íþróttamála hjá Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×