Innlent

Stórt snjóflóð féll á Flateyri

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Snjóflóðavarnagarðar á Vestfjörðum hafa sannað gildi sitt. Þetta segir útibússtjóri Snjóflóðaseturs á Ísafirði. Stórt snjóflóð féll á varnargarð fyrir ofan Flateyri yfir jólahátíðina.

Veður er að mestu gengið niður á Vestfjörðum eftir hvassviðri undanfarna daga. Hættustigi vegna snjóflóða var aflétt á norðanverðum Vestfjörðum í dag en ennþá er óvissustig. Íbúar á Hrauni í Hnífsdal og Geirastöðum í Syðridal á Bolungarvík fengu að snúa til síns heima í dag eftir að hafa orðið frá að hverfa vegna snjóflóðahættu.

Opnað var til Súðavíkur í dag og snjóflóðahætta á þeim slóðum minni. Snjóflóðaeftirlitsmenn unnu í dag við mælingar og kortlagningu. Fjöldi flóða féll á Vestfjörðum yfir jólahátíðina, það stærsta þó á Flateyri. Þar féll stórt snjóflóð á jóladag, á sama stað og flóðið sem féll árið 1995 er 20 létu lífið. Snjóflóðagarðar sönnuðu enn og aftur gildi sitt.

„Garðurinn beindi því flóði út í sjó og síðan vitum við öðrum flóðum í Eyrarhlíð, Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð. Það hafa þónokkur flóð fallið í þessari hrinu,“ segir Harpa Grímsdóttir, útibússtjóri Snjóflóðaseturs Háskóla Íslands á Ísafirði.

Þurfa sjaldnar að rýma byggð

Harpa telur aldrei of varlega farið þegar snjóflóð séu annars vegar. Æ sjaldnar þurfi þó að rýma byggð vegna snjóflóðahættu eftir að snjóflóðavarnir voru efldar á Vestfjörðum.

„Við teljum fullvíst að það hefði verið rýmt í Bolungavík strax fyrir jól og sennilega hefði verið rýming þar í gildi yfir alla jólahátíðina ef ekki væri fyrir þessa stóru og öflugu garða. Þetta gæti gilt um fleiri staði hér á norðanverðum Vestfjörðum,“ segir Harpa og bætir við:

„Snjóflóðavarnargarðanir eru farnir að sanna gildi sitt, ekki aðeins með því að beina flóðum frá heldur einnig líka með því að draga úr þessum stórfelldu rýmingum í byggð.“

Unnið var að því að ryðja flugbrautina á Ísafirði í dag og lenti vél Flugfélags Íslands þar síðdegis. Það var í fyrsta sinn frá því 22. desember en ekki hefur verið flugfært síðustu daga vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×